145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er verulega óheppilegt að Seðlabanki Íslands skuli með engum fyrirvara afboða áður boðaðan blaðamannafund um risastórar ákvarðanir í íslenskum efnahagsmálum. Það er afar óheppilegt vegna þess að það skapar auðvitað óvissu um stöðu þeirra stóru mála er snúa að uppgjöri slitabúa föllnu bankanna og hvort ekki hafi verið vandað vel til alls undirbúnings málsins, sömuleiðis efasemdir um það hvort ekki sé samstaða um tillögurnar innan stjórnkerfisins. Það er sömuleiðis óheppilegt að bankinn skuli ekki hafa séð sér fært að mæta á fund efnahags- og viðskiptanefndar í gær og fara yfir sjónarmið sín í málinu og upplýsa nefndina um stöðu þess.

Það er gríðarlega mikilvægt, ef fara á miklu ódýrari leið fyrir hina erlendu kröfuhafa, þ.e. stöðugleikaskilyrði í stað stöðugleikaskatts, og veita jafnvel mörg hundruð milljarða afslátt frá stöðugleikaskattinum í gegnum þá leið eins og Indefence hefur bent á, að það sé upplýst með hvaða hætti það er rökstutt hvernig tryggt sé að ekki sé verið að taka mörg hundruð milljarða á næstu árum út úr íslensku hagkerfi sem skerði lífskjör og tefji fyrir afnámi fjármagnshafta.

Það er lykilatriði í farsælu uppgjöri á slitabúum föllnu bankanna og uppgjöri við erlenda kröfuhafa að það sé góð samstaða allra stofnana og þvert á flokka í samfélaginu um uppgjör sem tryggi hagsmuni íslensku þjóðarinnar og menn rasi ekki um ráð fram í því að fella niður skattkröfur á erlenda aðila sem búið er að tryggja hér með lögum án þess að það hafi verið gaumgæft nægilega vel hvers vegna það ætti að gera.


Efnisorð er vísa í ræðuna