145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri.

[14:09]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að eiga orðastað við hæstv. innanríkisráðherra vegna þingsályktunartillögu sem samþykkt var á Alþingi þann 16. maí 2014. Þá samþykkti Alþingi í félagi við innanríkisráðherra að láta yfirfara viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri samhliða vinnu við heildarendurskoðun umferðarlaga með það að markmiði að fækka slíkum tilvikum. Í þingsályktunartillögunni sem samþykkt var er fjallað um að skoða skuli sérstaklega fjórar leiðir:

1. Lækka refsimörk ölvunaraksturs úr 0,5 prómillum niður í 0,2 prómill með samsvarandi mælingu öndunarsýnis.

2. Halda námskeið um alvarleika ölvunar- og vímuefnaaksturs.

3. Hækka sektargreiðslur vegna ölvunar- og/eða vímuefnaaksturs og að hluti þeirra renni í forvarnasjóð.

4. Skoða ný, gagnleg úrræði við ölvunar- og/eða vímuefnaakstri.

Við atkvæðagreiðslu um tillöguna var hún samþykkt með 54 greiddum atkvæðum, einn hv. þingmaður greiddi ekki atkvæði og átta hv. þingmenn voru fjarverandi við atkvæðagreiðsluna.

Markmið tillögunnar er að leitast við að fækka þeim tilvikum þar sem ökumenn aka undir áhrifum áfengis og/eða vímuefna. Í gögnum sem lögð voru fram við vinnslu tillögunnar kemur fram, og má þar m.a. nefna skýrslu Samgöngustofu og gögn frá rannsóknarnefnd samgönguslysa, að áfengis- og/eða vímuefnaakstur sé orsök þriðjungs banaslysa í umferðinni og einnig alvarlegra umferðarslysa.

Í þinglegri meðferð kom jafnframt fram að umferðarlög væru í heildarendurskoðun. Árið 2007 og á nokkrum þingum eftir það hefur frumvarp til umferðarlaga verið lagt fram en ekki náð fram að ganga. Umrædda tillögu átti að afgreiða í tengslum við frumvarpsvinnu að umferðarlögum, þ.e. mál 284 sem lagt var fram þingveturinn 2013–2014. Í öðrum gögnum sem meðal annars upplýsingadeild Alþingis safnaði saman vegna vinnslu málsins og varðar lagabreytingar vegna ölvunar- og/eða vímuefnaaksturs á Norðurlöndunum kemur fram að Svíar voru fyrstir þjóða til að lækka hámark leyfilegs áfengismagns í blóði. Það var úr 0,5 prómillum í 0,2 prómill. Í skýrslu sem kom út í kjölfarið og gefin var út af hálfu sænskra umferðaryfirvalda kom fram að öllum umferðarslysum fækkaði um 4% og öllum banaslysum um 8%. Auk þessa var framkvæmd samanburðarrannsókn í kjölfar lagabreytingarinnar. Hún staðfestir að fjöldi þeirra sem hættu við að aka undir áhrifum áfengis og/eða vímuefna hafi þrefaldast frá fyrri rannsóknum sem voru fyrir umrædda lagabreytingu. Í ljósi þessa má draga þá ályktun að umrædd lagabreyting hafi haft jákvæð áhrif á umferðaröryggi og umferðarmenningu þar í landi.

Í Danmörku voru einnig gerðar breytingar þar sem hámark leyfilegs áfengismagns í blóði var lækkað úr 0,5 prómillum í 0,25 prómill vegna áfengismagns í útöndunarlofti. Þar kemur fram að fjöldi látinna í umferðarslysum vegna ölvunar hafði lækkað um 75% eftir breytinguna.

Mig langar í þessu samhengi að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort endurskoðun umferðarlaga sé í gangi. Ef endurskoðun er í gangi, er tekið tillit til umræddrar þingsályktunartillögu um hert viðurlög við ölvunar- og/eða vímuefnaakstri? Ef endurskoðun er ekki í gangi, hvenær er fyrirhugað að hún fari í gang og að við fáum að sjá nýtt frumvarp um umferðarlög eða aðra tillögu sem snýr að því að markmið þessarar umræddu þingsályktunar nái fram að ganga?

Ég vil segja að lokum að mikilvægt er að við horfum í það sem vel er gert í kringum okkur. Mikilvægt er að við reynum að minnka líkurnar á því að fólk lendi í slysum vegna ölvunar- og/eða vímuefnaaksturs. Þau slys sem önnur hafa mikil áhrif á þá sem í þeim lenda, hvort sem um er að ræða þann sem veldur slysinu eða þann sem fyrir því verður.

Minnkum þær hörmulegu afleiðingar sem hafa orðið og geta orðið vegna þessara slysa fyrir alla aðila.