145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri.

[14:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir að hefja umræðu um þetta mikilvæga mál og jafnframt það að hafa haft þetta mál á dagskrá á þessu þingi. Við vitum auðvitað öll að ölvunar- og vímuefnaakstur er alvarlegt mál sem mikilvægt er að komið sé í veg fyrir með öllum tiltækum ráðum. Það er að sjálfsögðu fortakslaus krafa að ökumenn neyti ekki áfengra drykkja áður en þeir setjast undir stýri. Því miður stendur fjöldi fólks í þeirri trú að neysla takmarkaðs áfengismagns skerði ekki aksturshæfi. Þó er ljóst að ökumenn geta ekki undir neinum almennum kringumstæðum vitað hversu mikil áhrif neysla áfengis hefur á líkama þeirra og dómgreind, hvorki almennt né í einstökum tilvikum.

Ég tel nauðsynlegt að bregðast við þessum alvarlega vanda, akstri undir áhrifum áfengis, með því að reyna að eyða óvissu meðal ökumanna hvað þetta varðar og þá þarf að sjálfsögðu að taka það fram að akstur undir áhrifum vímuefna er einnig algerlega óásættanlegur.

Það er brýnt að ökumenn leggi sitt af mörkum í þessum efnum og auki umferðaröryggi, hvort sem það er í eigin þágu eða annarra, og komi þannig með ábyrgum hætti í veg fyrir þau fjölmörgu dauðsföll og alvarlegu umferðarslys sem árlega verða vegna ölvunaraksturs eða aksturs undir áhrifum fíkniefna. Ökumaður þarf ávallt að vera vakandi og allsgáður til að geta brugðist rétt við því sem upp getur komið við akstur. Áhrif áfengis og vímuefna draga verulega úr hæfni ökumanns til að greina merki um ýmsar hættur en stærsta ógnin sem við stöndum almennt frammi fyrir varðandi umferðaröryggi felst í fjölda þeirra ökumanna sem telja sig færa um að stýra vélknúnum ökutækjum eftir að hafa neytt áfengis eða vímuefna. Sú staðreynd felur í sér alvarlega áminningu til okkar allra, áminningu sem ekki má gleyma.

En varðandi fyrirspurn hv. þingmanns þá hefur ráðuneytið uppi tvenns konar áform þegar kemur að umferðarlöggjöfinni. Í fyrsta lagi er á þingmálaskrá tæknilegt frumvarp sem ég ætla svo sem ekki að fara mörgum orðum um hér. Það er vegna tilskipana og slíkra þátta. Það frumvarp er nokkuð langt komið og ég hef kosið að reyna að koma tilskipunarmálunum öllum sér inn í þingið svo hægt sé að ljúka afgreiðslu þeirra. Síðan er efnislegt frumvarp í vinnslu í ráðuneytinu, sem er frumvarp um breytingu á umferðarlögum. Það hefur verið um langa hríð meiningin að gera breytingu á umferðarlöggjöfinni. Það hefur gengið afar hægt og verið torsótt að koma því í gegn þannig að við mátum það svo að það þyrfti að fara aftur í gegnum það mál. Við munum í því sambandi hafa til hliðsjónar þá þingsályktunartillögu sem hv. þingmaður nefndi. Þar verður að finna efnislegar breytingar á umferðarlögunum sem eru taldar nauðsynlegar til að auka umferðaröryggi.

Við erum sem sagt í þessari vinnu núna í ráðuneytinu og hún snýr að ýmsum ákvæðum núgildandi umferðarlaga sem ekki eru talin nægilega skýr eða þarfnast breytinga af einhverjum ástæðum. Ég nefni sem dæmi ákvæði vegna hjólreiðamanna, vegna þokuljósa, vegna aksturs við tilteknar aðstæður, forgangsaksturs og ýmislegs og svo eins og hér er gert að umtalsefni hugsanlegar breytingar vegna ölvunaraksturs. Það mál er á því stigi núna að ég taldi óþarft að leggja það til á þessu haustþingi. Það er bara ekki komið nógu langt og það er betra fyrir okkur að vinna málið betur þannig að líklegra sé að við komum því í gegnum þingið. Við munum freista þess að leggja fram frumvarp af þessum toga á vorþingi.

Þau atriði sem hv. þingmaður nefnir eru auðvitað öll til skoðunar um það hvernig hugsanlega væri hægt að herða á viðurlögum við ölvunarakstri. Hér hefur verið nefnt áfengismagn í blóði o.s.frv. Allt eru þetta hlutir sem eru núna í skoðun og ekki efni fyrir mig að fara ítarlega ofan í einstaka þætti hvað það varðar. Ég held að við þurfum fyrst og fremst að kynna til sögunnar úrræði sem eru best fær í þessu sambandi til að sporna við ölvunar- og vímuefnaakstri. Um leið og löggjöfin skiptir gríðarlega miklu máli og þörf er á því að þróa hana er algerlega ljóst að við þurfum líka að standa okkur betur í því sem ég gat um í upphafi og hlýtur að vera alfa og ómega í svona umræðu að menn skilji hvað það þýði að ögra svo samfélaginu og sjálfum sér að telja sig færa um að aka bíl eða vélknúnum ökutækjum eftir að þeir hafa neytt áfengis. Það hlýtur að vera meginverkefnið að menn átti sig á þeim veruleika en löggjöfin þarf að sjálfsögðu að styðja þar vel við.