145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[16:15]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka aftur fyrir tækifærið sem felst í þessari þingsályktunartillögu til að fjalla um framtíðargjaldmiðil Íslands. Eins og ég sagði áðan held ég að það sé hollt að velta því reglulega fyrir sér hvort hér sé heppilegur gjaldmiðill og hvort það eigi að vera aðrir gjaldmiðlar og jafnvel hvað gjaldmiðill er og hvers við getum raunverulega vænst af góðum gjaldmiðli. Ég vil taka undir með flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu að eitt af mikilvægustu hlutverkum ríkisins er að sjá til þess að í landinu sé starfhæfur gjaldmiðill, öruggur og traustur, sem hjálpar efnahagslífinu og hagkerfinu að ná markmiðum sínum og skapar ekki óstöðugleika í sjálfu sér, innleiðir ekki einhvers konar sveiflur af mannavöldum.

Við höfum hins vegar, eins og kemur fram í ræðu hv. framsögumanns Guðmundar Steingrímssonar, upplifað alveg gríðarlegar hörmungar í peningamálum. Það er því alveg vonlegt að menn velti því fyrir sér hvort það sé gjaldmiðillinn sjálfur sem er vandamálið og hvort engin leið sé til að stjórna honum yfir höfuð, hvort við þurfum að taka inn ráðgjöf annarra í því og fá til notkunar í innra hagkerfi okkar gjaldmiðil sem er starfræktur af útlendingum af því að þeir eru skynsamari en við og betri til þessa verkefnis.

Ég tel þó ekki fullreynt enn þá að við séum ekki fær um að reka það kerfi sem við köllum gjaldmiðil. Ég ætla aðeins að útskýra hvers vegna ég held að það sé ekki fullreynt.

Á þeim tíma síðan Seðlabankinn var stofnaður árið 1961 hefur krónan tapað 99,7% af kaupmætti sínum. Hlutverk Seðlabankans var að varðveita kaupmátt krónunnar, reyna að varðveita fjármálastöðugleika og kaupmátt gjaldmiðilsins. Það mistókst gjörsamlega. Hvernig gat þetta farið svona illa? Fyrstu áratugina var það þannig að við vorum með ríkisbanka, banka sem voru í eigu ríkisins en var stjórnað af pólitískum öflum. Ég held að fjórflokkurinn eða hvaða flokkur sem var þá við völd hafi skipt á milli sín þessum bönkum og prentað peninga fyrir hina og þessa sem þurftu að fá lán í bönkunum til framkvæmda, það voru þá væntanlega þeir sem höfðu kosið réttan flokk sem fengu fyrirgreiðslu. Þetta er allra versta mögulega útfærsla á því að reyna að stýra peningamagninu. Við upplifðum árið 1980 eða 1981, ef menn muna eftir því, að verðbólgan á Íslandi var 83% og á sama tíma var peningamagn aukið um 80% í landinu á einu ári. Það hefur lítið verið rætt um fylgni á milli aukningar peningamagnsins og verðbólgunnar sem af henni hlaust. Það var meira talað um hvað verkalýðurinn í landinu væri að gera óraunhæfar kröfur um launahækkanir og eitthvað slíkt, um það voru fyrirsagnirnar, Gvendur Jaki fór fram á hærri laun og atvinnulífið lét undan, heimtuð var gengisfelling fyrir sjávarútveginn og svo koll af kolli. Þetta var allt í tómri vitleysu.

En við erum ekki dæmd til að endurtaka öll þau mistök aftur. Við ættum að kynna okkur virkilega vel hvað gekk á í raun áður en við stökkvum í fang þeirra sem eru kannski ekkert að gera betur í Evrópusambandinu. Þegar ég fer að skoða myntbandalag evrunnar og það sem er í gangi þar líst mér ekkert á blikuna. Hver einasti banki er með sáralítið eigið fé. Þeir geta ekki hjálpað Grikklandi út úr efnahagsörðugleikum sínum vegna þess að Þjóðverjum þykir ekki nægilega vænt um Grikki til að lána þeim pening. Við erum að komast að því að til þess að leysa skuldavanda Evrópulanda sem eru með evruna dettur Seðlabankanum í hug að búa til meiri skuldir, ekki örlítið meiri heldur skal auka skuldirnar um 1.200 milljarða evra. Ég held það hafi verið 60 milljarðar á mánuði marga mánuði í röð. Þetta var lán í umferð, allt þetta fé til þess að halda sýningunni gangandi.

Ég hef miklar áhyggjur af því að ekki muni takast að bjarga myntbandalaginu með þessari gegndarlausu peningaprentun. Markmiðið með henni var að reyna að koma í veg fyrir verðhjöðnun, reyna að koma hjólum atvinnulífsins í gang, setja peninga út í hagkerfið, en þeim dettur ekkert betra í hug en að lána peningana í umferð. Af hverju ekki að láta ríkissjóðinn fá þessa peninga og verja þeim í umferð með því að búa til innviði, bæta heilbrigðiskerfið og annað, þá lenda þeir í vösum fólks? Það sem verður um þessa peninga í dag er að þeir verða allir notaðir til spákaupmennsku. Það gerir ekkert annað en að leiða til eignabólu, hækkana á hlutabréfamörkuðum, fasteignamörkuðum og annað slíkt. Ég treysti þeim ekki betur en Íslendingum fortíðarinnar til þess að reka fyrir okkur gjaldmiðil. En ég treysti okkur vel til þess að horfast í augu við það hvernig á að gera hlutina betur.

Ég held að nokkuð augljóst sé hvað þurfi að gera og það sé ekki á vísan að róa með það að fá hingað leigðan erlendan gjaldmiðil til þess að reka innanríkisviðskipti okkar. Ég er algjörlega ósammála því að við eigum að reyna að freista þess að búa til íslenska krónu sem er gjaldgeng í viðskiptum einhvers staðar úti í heimi. Við getum alveg notað bandaríkjadollar og evru og jen í viðskiptum við aðrar þjóðir. Það eina sem við eigum að nota og krefjast af okkar gjaldmiðli er að hann spari okkur þann kostnað sem fælist í því að leigja annarra manna gjaldmiðil til þess að eiga viðskipti okkar á milli innan lands. Það er langsnjallasta leiðin vegna þess að þann gjaldmiðil getum við búið til úr engu, við þurfum ekki að fá hann lánaðan hjá einum eða neinum. Þetta eru aðeins tölur í bankabók, já, eða pappírsmiðar sem við prentum með litlum tilkostnaði.

Gjaldmiðill þarf ekki að hafa neitt virði í sjálfu sér. Hann þarf ekki að vera úr gulli eða demöntum eða neinu dýru. Hann er eiginlega verri eftir því sem hann er verðmætari sjálfur. Gull er ekki gjaldmiðill, það er vara. Ef við ætluðum til dæmis að taka upp gull sem gjaldmiðil, sem ég er feginn að var ekki stungið upp á í þessari tillögu, þyrftum við að taka stóran gullforða að láni og nota hann í viðskiptum okkar og það er dýrt.

Það sem er algjörlega ókeypis er að búa til gjaldmiðil úr engu með samkomulagi um að með þessum einingum megi greiða allar skuldir og skatta í landinu og svo þurfi að gæta þess að ekki sé of mikið af einingunum og þeim sé ekki fjölgað ótæpilega eins og gert hefur verið hingað til.

Síðustu 14 árin í aðdraganda hrunsins árið 2008 jókst peningamagnið sem við notum í daglegum viðskiptum nítjánfalt. Þá er ég að tala um peninga sem eru á innstæðum, sem hægt er að nota til að greiða skatta. Bönkum var leyft að nítjánfalda þá. Hvað var Seðlabankinn að hugsa, bankinn sem átti að gæta þess að fjármálastöðugleika væri gætt á Íslandi? Af hverju greip hann ekki inn í og sagði: Heyrðu, mér finnst þið vera að búa til aðeins of mikið af peningum fyrir hagkerfið? Satt að segja voru bankarnir að búa til sex sinnum meira af peningum en þurfti til þess að mæta vexti raunhagkerfisins. Ég tek undir með hv. flutningsmanni að slíkar vitleysur eru náttúrlega algjörlega óásættanlegar í peningastjórninni. Við erum hins vegar ekki dæmd til þess að halda þeim áfram. Við eigum að hafa auga með því hvað peningamagn er að aukast mikið á Íslandi.

Það gerðist hér eins og annars staðar upp úr 1980 að peningamagnshagfræðin eða monetaristarnir misstu allan trúverðugleika þegar í ljós kom að fylgni hvarf á milli aukningar peningamagns og verðbólgu, sem hafði verið nokkuð sterk fram að 1970, 1980. Monetaristarnir gátu ekki útskýrt hvers vegna það var allt í einu í lagi að auka peningamagnið og án þess að það kæmi verðbólga eins og spáð hafði verið, eins og gerst hafði áður. Það komu fram hagfræðingar sem sögðu að peningamagn væri aðeins aukastærð, afgangsstærð.

Nú sjáum við hins vegar, og hagfræðingar eru loksins farnir að átta sig á því, að umframpeningarnir sem fóru ekki út í raunhagkerfið fóru inn á fjármálamarkaðina. Upp úr 1970, 1980 verður mikil frelsisvæðing á öllum fjármálamörkuðum í öllum löndum heimsins. Hérna kom hún af fullum krafti 1980, 1990 og þá sáum við líka samhengi peningamagnsaukningar og verðbólgu hverfa.

Það er áhugavert að skoða til dæmis það sem er að gerast í Danmörku núna. Þar er peningamagn að aukast og íbúðaverð hækkar alveg í takt við það.

Við verðum að fara að fylgjast með peningamagni, mæla ekki aðeins verðbólguna sem er að gerast í raunhagkerfinu, þ.e. neysluvísitölunnar, heldur líka eignaverðsbólunnar. Hérna erum við að horfa á hækkandi fasteignaverð. Gæti það verið vegna þess að Seðlabankinn er að prenta of mikið af peningum eða einhverjir af viðskiptabönkunum? Við þurfum að hafa miklu meira eftirlit með því hversu mikið er framleitt af peningum.

Jafnvel þótt við tækjum upp annarra manna peninga, einhverja erlenda mynt eins og evruna, gæti verið erfitt að standa gegn því að hér mundi geysast inn alveg gríðarlegt magn af evru sem hleypti upp fasteignaverði án þess að við réðum nokkuð við það og svo mundi það geysast út aftur næsta dag. Það gerðist í Grikklandi. Þeir bjuggu við alveg firnalága vexti rétt eftir að þeir fengu evruna. Það geystist inn fé. Hver er staðan núna? Núna eru vextirnir firnaháir og skortur er á fé í Grikklandi. Það þarf að endurfjármagna bankana reglulega.

Ég held þetta sé mjög þörf og góð umræða og vil þakka fyrir hana. Ég sé að tími minn er á þrotum en ég fagna þessari þingsályktunartillögu og hlakka til að fjalla um hana á vettvangi þingsins.