148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[16:14]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Loga Einarssyni og þingflokki Samfylkingarinnar fyrir þetta frumvarp og tek undir mjög margt sem kom fram í framsöguræðu hv. þingmanns. Hann fór mjög vel yfir sögu mála og skýrslu sem kom út í mars 2016 í tíð hæstv. ráðherra Eyglóar Harðardóttur. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður kom inn á að það er ætlun núverandi ríkisstjórnar að bæði lengja fæðingarorlofið og hækka greiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Ég tek undir öll þau sjónarmið sem hv. þingmaður kom inn á varðandi jafnréttismál og mikilvægi þessa fyrir barnið og fjölskylduna.

En ég vil segja að það er mjög mikilvægt í þessari umræðu, og það er eitt af því sem við erum að skoða núna og er ætlunin að taka inn í þetta, að huga einmitt að jaðarhópum sem hv. þm. Halldóra Mogensen kom inn á. Það eru einstæðir foreldrar, það eru líka námsmenn, það eru glufur þar þegar kemur að fæðingarorlofskerfinu. Þetta er allt saman eitthvað sem núverandi ríkisstjórn ætlar sér að reyna að skoða samhliða. Ég vil líka segja að það er alls ekki svo að þó að aðilar vinnumarkaðarins, sem eins og hv. þingmaður kom inn á áttu sæti í þessum starfshópi á sínum tíma, komi að þessu og haft sé samráð við þá, þá er þetta engin skiptimynt í samningum. (Forseti hringir.)Það er ætlun núverandi ríkisstjórnar að lengja fæðingarorlofið. Þetta frumvarp er bara mjög gott innlegg í það og ég þakka hv. þingmanni fyrir það.