148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta.

50. mál
[18:05]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er tillaga sem mér finnst mjög merkileg og kemur inn á mál sem við þurfum að taka virkilega á ef við ætlum að ná jafnrétti á vinnumarkaði. Þarna er lögð fram tillaga að því hvernig við getum nálgast málið sem ég held að sé allrar skoðunar verð og ég hlakka til frekari umfjöllunar um málið. Þetta mál er ekki bara hluti af vinnu að jafnréttismálum það er líka nátengt framtíðarmenntastefnu í landinu, ekki bara til þess að byggja grunninn heldur er líka hluti af því hvernig menntun við þurfum að bjóða upp á. Í dag í fyrri umræðum hefur fólki orðið tíðrætt um fjórðu iðnbyltinguna og framtíðarstörfin, þau munu byggja á tækni en kannski þar sem mest þörf er á menntuðu vinnuafli og aukinni menntun er einmitt í umönnunarstörfum því að þeim fjölgar mjög mikið á heimsvísu.

Í haust þegar heimsþing alþjóðasamtaka kvenleiðtoga var haldið hér var þar m.a. fulltrúi OECD sem hafði það beinlínis að markmiði að reyna að fjölga fólki í hjúkrunarnámi í heiminum. Það er eitt af mikilvægustu verkefnunum sem fram undan eru og það á við um öll umönnunarstörf.

Þessi tillaga fékk mig líka til að líta til baka á umræðu sem ég tók upp hér 24. mars 2015 um fyrirkomulag vinnu á hjúkrunarheimilum þar sem í mörgum tilfellum er boðið upp á hlutastörf, 80% störf, það er ekkert annað í boði. Það er annars vegar vegna sparnaðar en hins vegar er því borið við að álagið sé svo mikið að 80% starf sé í rauninni alveg nóg. Ég vil spyrja þingmanninn hvort hann hefur kynnt sér þetta fyrirkomulag sérstaklega í þessari vinnu (Forseti hringir.) og hvort hluti af þessu þurfi ekki að vera að horfa á styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu.