148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

105. mál
[19:08]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir frábært framtak. Mér er málið skylt. Ég er lögblind og hef þurft að njóta aðstoðar Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.

Hins vegar þegar við tölum núna um hverjir það eru sem eiga að fá niðurgreiðslu vegna gleraugna eða hvað annað sem er, þá segi ég bara: Við skulum bara gera enn betur. Auðvitað verðum við að byrja einhvers staðar, en í raun er algjörlega sjálfsagt að það sé ekki háð efnahag foreldra sem eru með börn á framfæri hvort þau eru 9 ára, 10 ára eða 12 ára þegar þau geta fengið gleraugu endurgjaldslaust. Staðreyndin er sú að gleraugu kosta tugi þúsunda króna og foreldrar hafa þurft að draga það að fara með börnin sín til augnlæknis vegna þess að þeir vita að pakkinn verður það stór að þeir hafa ekki efni á að greiða fyrir gleraugu.

Þannig að ég segi: Á meðan börn eru á framfæri foreldra, misefnamikilla foreldra, eigum við að sjá til þess að þau geti öll fengið gleraugu, alltaf. En til hamingju, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Ég skal svo sannarlega standa með þér.