150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

upphæð örorkulífeyris.

[10:47]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hann vitnaði í ályktun aðalfundar Öryrkjabandalagsins og það er alveg rétt að samkvæmt nýgerðum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði er gert ráð fyrir því m.a. að lágmarkslaun hækki. Reyndar liggur ekki nákvæmlega fyrir á hvaða hátt það verður vegna þess að sú nýlunda var í kjarasamningunum að hluti af þeirri hækkun er bundinn við það hvernig hagkerfinu vindur áfram.

Við þurfum að hafa í huga þegar við ræðum bætur almannatrygginga, hvort sem er örorkulífeyri eða greiðslur til aldraðra, að þær eru alla jafna bundnar við vísitölu svo að þær breytast. Þó að þingmaðurinn hristir hausinn er það þannig að í fjárlögum hvert ár gerum við ráð fyrir því að stofninn þar hækki á þeim grunni. Það hefur verið kallað eftir því að það sé hluti af kjarasamningum en hann er það ekki á þann hátt vegna þess að hann er bundinn þannig að við erum að breyta stofninum og grunninum við fjárlagagerð hvers árs á meðan almenn laun á vinnumarkaði eru ekki verðtryggð. Þau eru ekki tengd vísitölu eða hækka sjálfkrafa þegar verðlag í landinu hækkar. Þetta helst aldrei þannig saman í hendur.

Hins vegar spyr þingmaðurinn hvað við séum að gera og af hverju við séum ekki að gera neitt gagnvart þeim sem búa við bágust kjörin. Við bættum á yfirstandandi ári við fjármagni sem ætlað var m.a. til þess að draga úr krónu á móti krónu skerðingum. Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er gert ráð fyrir 1,1 milljarði kr. til að bæta stöðu þessa hóps. Það er sá rammi sem við munum vinna út frá. Við erum líka í fjölmörgum aðgerðum sem lúta að húsnæðismálum sem eiga að geta nýst þessum hópi jafnt sem öðrum og skattkerfisbreytingum o.fl. Þegar það allt saman er tekið (Forseti hringir.) tel ég að með því séum við að bæta kjör þessa hóps og ég vona að þingmaðurinn sé sammála mér um að margt af því séu jákvæðar aðgerðir.