150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[11:38]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um hvert sé aðalmál þessarar stefnumörkunar. Aðalmál stefnumörkunarinnar er markmiðin, þ.e. að sveitarfélög á Íslandi verði öflug og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi. Hvað þýðir það? Það þýðir að íbúar í hverju sveitarfélagi kjósa þá stjórn og þá þjónustu sem íbúarnir fá. Það snýst ekki um að íbúarnir í einu sveitarfélagi semji við annað sveitarfélag og fái þá þjónustu sem kjörnir fulltrúar í því sveitarfélagi voru kosnir til að veita. Það hefur bara ekkert að gera með íbúana í sveitarfélögunum sem gera samninginn. Það er kannski stóri þátturinn í þessu.

Hinn er sá að tryggja að sjálfsstjórn og ábyrgð sveitarfélaganna sé virt og að tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu. Það er auðvitað áhyggjuefni okkar. Það getum við ekki alltaf gert. Þá treystum við á sveitarfélögin til þess. Ef þau eru mjög ólík, sum hver mjög óburðug til að gera það en önnur burðugri, eigum við erfitt með að tryggja jafnt aðgengi íbúa að þjónustu sem við viljum. Þetta er aðalmálið.

Svo er það auðvitað ekki rétt hjá hv. þingmanni að einhver fleiri sveitarfélög hafi sagt sig frá sambandinu. Það er eitt, Tjörneshreppur. Þar búa 55 manns. Þeir gera samning við sitt nágrannasveitarfélag, Norðurþing, um alla þjónustu sveitarfélagsins þannig að þeir uppfylla auðvitað ekki fyrsta markmiðið.

Það er rétt að það eru hvatar í dag og þeir hafa virkað. Í mjög langan tíma hafa hins vegar óskir sveitarstjórnarmanna verið að þeir kæmu svolítið meira jafnfætis til móts við ríkið og segðu: Við getum gert þetta — á sviði málefna barna og ungmenna, eins og t.d. er verið að stefna að. Þá kemur spurningin: Verða sveitarfélögin í stakk búin til þess eða ætlum við að halda áfram að láta landshlutasamtökin gegna því hlutverki (Forseti hringir.) og fara þá í þriðja stjórnsýslustigið? Til þess hefur ekki verið neinn vilji, hvorki á Alþingi né meðal sveitarstjórnarmanna.