150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

86. mál
[15:01]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hingað í ræðustól í eitt stutt andsvar. Ég á að sitja fund á neðri hæðinni með erlendum gestum núna kl. 15 þannig að ég hef ekki tíma til að eiga mikinn orðastað við hv. þingmenn. Ég ætla að leiðrétta þau ummæli að ég sé hrifinn af útflutningi sorps, ef hv. þingmaður heldur að ég sé að mæla með honum. Ég kallaði hann neyðarlausn. Við vitum alveg af hverju hann stafar. Hann er bara vegna þess að þessi mál hafa verið í ólestri í langan tíma. Þetta hefur safnast upp. Þá grípa menn til þessa ráðs. En ég er á móti útflutningi sorps almennt séð og sagði það áðan. Við vitum það báðir.

Hitt er að ég kom að því að ég hafi skrifað, löngu áður en þessi þingsályktunartillaga kom fram, minnisblað til þriggja ráðherra með ósk um úttekt á heildarskipulagi úrgangsmála á Íslandi og ég lagði fram tvo kosti vegna þess að ég hef hitt þá menn sem hafa talað fyrir þessu á vegum verkfræðiskrifstofa og fyrirtækis hér í landi. Það er hátæknibrennsla og annaðhvort hringferð með skipum eða bílum, söfnun, uppsöfnun. Það var annar kosturinn sem ég bað um að yrði skoðaður. Hinn er sá sem ég kalla endurvinnslulausnina þar sem 90% af efninu er meðhöndlað hér heima, málmarnir fluttir út, spilliefni flutt út, spítalaúrgangur brenndur, óvirkur úrgangur urðaður en annað er endurnýtt vegna þess að þetta efni er í raun og veru hráefni til ýmislegs. Og að lokum: Ég er ekki að mótmæla þessari þingsályktunartillögu eða framlagningu hennar vegna þess að hún er að gera nokkurn veginn það sama og ég er að biðja um. Ég er bara að taka afstöðu nú þegar til annarrar leiðarinnar.