150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

86. mál
[15:07]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er sérfræðingur í sýndarmennsku. Hann útskýrði það orð líka í umræðum í fyrrakvöld, ef ég man rétt, og ekki með mjög góðum árangri. En í þetta skipti er þingmaðurinn að rugla saman tvennu sem ég sagði. Ég sagði að umræða um umhverfismál á Íslandi einkenndist af sýndarmennsku og ég stend við það. Og ég sagði að mörg þeirra úrræða sem gripið væri til á vegum stjórnvalda væru sýndarmennska og ég stend líka við það. Ég rökstuddi það áðan. Ég var ekki að skamma nokkurn einasta mann fyrir að taka ekki þátt í þessari umræðu. Ég lýsti hins vegar undrun á því þeir sem gefa það út fyrir fram fyrir okkur hin að þeir séu umhverfissinnar skuli ekki taka þátt. Þegar fram kemur svona, og nú má ég ekki segja „konkret“, herra forseti, markviss tillaga um könnun á þó nokkuð stóru vandamáli í umhverfismálum kemur það mér á óvart að þeir sem segja okkur hinum að þeir séu meiri umhverfissinnar en við hafi ekki hug á því að taka þátt í umræðunni. En það kann vel að vera að með því að ég gagnrýni þetta eða finni að þessu eða finnist það skrýtið sé það sýndarmennska. Eins og ég segi aftur, hv. þingmaður er sérfræðingur í þessu orði. En ég fer ekkert ofan af því og ég kom áðan með dæmi um að það hvernig umhverfismálum á Íslandi er komið, t.d. af hálfu stjórnvalda, sé sýndarmennska og ég stend við það. Þegar við einblínum á úrgang sem er 1% af öllum úrgangi á Íslandi og þegar við einblínum á útblástur sem er 3–4% af öllum útblæstri á Íslandi en horfum ekki á stóru myndina, er það sýndarmennska að mínu áliti.