151. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2020.

sóttvarnaráðstafanir, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Að vanda er hv. þingmaður með allnokkrar spurningar á stuttum tíma. Ég ætla að gera mitt besta við að svara þeim. Ég er eiginlega alveg viss um að það er miklu meira framandi fyrir okkur sem erum ekki vön því í daglegu lífi að vera með grímur að þola það í gegnum daginn. Fólk sem vinnur á heilbrigðisstofnunum er sumt hvert vant því að vera mjög mikið með grímur í vinnu sinni og oft tímunum saman, óháð Covid.

Ég er sammála hv. þingmanni í því að dást að framlínustarfsfólki og við samþykktum hér frá Alþingi milljarð fyrr á þessu ári í sérstakan launaauka fyrir heilbrigðisstarfsfólk í heilbrigðiskerfi okkar. Ég er sammála hv. þingmanni um að öflug bakvarðasveit er alveg gríðarlega mikilvæg og við höfum sem betur fer fengið mjög mikil viðbrögð frá heilbrigðisstarfsfólki og fólki með heilbrigðismenntun sem er við önnur störf í samfélaginu en hefur skráð sig í bakvarðasveitir. Það er ekki þannig að öll þau sem skrá sig í bakvarðasveit séu tilbúin til að vinna við hvað mesta áhættu eða með Covid-sýktum einstaklingum, en það fólk er tilbúið til að vinna annars staðar og það skiptir gríðarlega miklu máli, sérstaklega þegar um er að ræða tugi ef ekki hundruð heilbrigðisstarfsfólks sem er í sóttkví á einhverjum tilteknum tíma.

Ég er líka sammála hv. þingmanni um að við hefðum þurft að sjá þetta allt saman fyrir og vera betur undirbúin. En það sem ég staldra helst við í þeim efnum er að við hefðum átt að vera byrjuð að byggja nýjan Landspítala við Hringbraut fyrir mörgum árum og vera búin að því, vegna þess að við sköpum náttúrlega ekki þessu góða fólki almennileg starfsskilyrði eða starfsumhverfi.