Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

Fjármögnun heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu.

[11:52]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Þetta hefur verið fín umræða hér um heilsugæsluna okkar og ljóst að hún á sér stað í hjarta okkar allra, allt frá því eiginlega að við komumst til vits og ára. En málshefjandi, hv. þm. Hildur Sverrisdóttir, vildi ræða um fjármögnun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þetta er tilraun sem var sett á laggirnar fyrir nokkrum árum í tíð ráðherra Sjálfstæðisflokksins, tilraun til að auka gegnsæi og auka jafnræði í þjónustu, til að fá fram betri nýtingu fjármuna, eins og gjarnan leiðir af gegnsæi og jafnræði í meðförum fjármuna ríkisins. Eitt það fyrsta sem ríkisstjórn sú sem nú starfar og hefur starfað saman í fimm ár gerði var að fikta í þessu kerfi. Pólitísk rörsýn kikkaði inn og gegnsæið fór út og þar með jafnræði í þjónustu og skynsamleg nýting fjármuna. Fyrir þetta liðu 70.000 íbúar höfuðborgarsvæðisins sem eru skjólstæðingar þeirra einkareknu heilsugæslustöðva sem kerfið virkaði ekki lengur fyrir eins og það átti að virka. Ég held að það sé mjög mikilvægt, ef við ætlum að gera betur, að hafa það á hreinu að þetta var hvorki óvart né dulið. Það var kvartað í riti og ræðum yfir þessu hér innan salar og í fjölmiðlum og í stjórnsýslunni. Hæstv. ráðherra talaði um hér áðan að kerfið þyrfti að vera í sífelldri þróun og ég trúi orðum ráðherrans um að hann vilji laga þetta. Ég saknaði þess hins vegar að heyra hann nefna þetta, að kerfið hefði sem slíkt verið í lagi, en ég er sammála því að það þurfi að þróa það. Gallinn var að greitt var fram hjá því. Tekin var pólitísk ákvörðun um að ríkisreknu stöðvarnar fengju greitt fram hjá kerfinu og það er það sem þarf að nást sátt um, ef það á að laga þetta, (Forseti hringir.) að verði ekki gert. (Forseti hringir.) Við höfum allt of mörg dæmi um það að jafnvel hin bestu kerfi er hægt að misnota. Spurningin er: Á að halda áfram að misnota þetta kerfi eða ekki?