Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

Fjármögnun heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu.

[11:57]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum öllum kærlega fyrir mjög fína umræðu. Eins og gengur með málefni sem snerta okkur öll og við erum öll persónulega sammála um að skipti ofboðslega miklu máli, sem er heilbrigðiskerfið okkar, þá er skiljanlega farið um víðan völl og var hér tæpt á mörgu. Í því ljósi verð ég að fá að nota tækifærið og segja einu sinni enn: Ég held að ruglingur á einkavæðingu og einkarekstri hafi verið umræðu um heilbrigðiskerfið okkar ofboðslega mikið til trafala Þótt hann sé skiljanlegur þá hefur hann gert mjög sjálfsagða og skynsamlega umræðu miklu erfiðari og miklu tilfinningaþrungnari vegna misskilnings. Það er synd því að einkarekstur er í grunninn, bara svo ég noti tækifærið og segi það hér beint út, kerfi þar sem sjúklingurinn hefur í rauninni ekki hugmynd um hvar hann er staddur í kerfinu, hið opinbera er alltaf að hlúa að honum og passa upp á hann. Það er hins vegar mögulega annar aðili en hið opinbera sem er betur til þess fallinn að halda utan um rekstur og viðkomandi þjónustu þótt sjúklingurinn, sama hvar hann býr, sama hversu marga peninga hann á, sé að njóta þjónustunnar. Ég vildi bara nefna þetta einu sinni enn.

Ég fagna því sem ráðherra sagði og þakka honum aftur fyrir. Það er fagnaðarefni að heyra að líkanið sé í þessari skoðun og komið svona langt með þessum hópi haghafa. Ég myndi halda að til framtíðar skipti kannski einna mestu máli að reyna að hugsa að þessi grunnhugsun í kerfinu var bara nokkuð góð, þetta upphaflega fjármögnunarlíkan var vel hugsað. Þessi freistnivandi að fara fram hjá kerfinu veldur því að þá þarf alltaf eitthvert sáttarsamtal og einhvern bútasaum sem gerir kerfið allt miklu erfiðara, (Forseti hringir.) þannig að ég held að til framtíðar sé í allra þágu að reyna að vera straumlínulagaðri í þessu (Forseti hringir.) og svo bara að þetta samtal við t.d. þá aðila sem halda utan um þennan rekstur allan sé opið og gott.