Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

breytingar á aðalnámskrá í grunnskóla.

52. mál
[14:08]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég hef ekkert á móti þeirri aðferð sem hér er lögð fram. Það sem ég hef á móti er ef við ætlum að hafa eina kennsluaðferð eða eina hugmyndafræði hér að baki. Hvað á að gera við allar hinar aðferðirnar? Eigum við bara að henda þeim út um gluggann sem hafa reynst ákveðnum hópum nemenda vel? Á þá bara að byrja á núlli og byrja frá grunni? Hvað á að gera við PALS? Hvað á að gera við Lubbi finnur málbein? Hvað á að gera við ýmsar aðrar aðferðir? Eigum við að hætta að nota lesskilningsprófið Orðarún? Við erum auðvitað með hraðlestrarpróf en það eru líka lesskilningspróf sem eru stöðluð. Við mælum ekki bara lestrarhraða í grunnskólum í dag.

Punktur sem ég geng út frá hér og ég velti bara fyrir mér, hv. þingmaður, er að það að ætla að binda í aðalnámskrá grunnskóla hvað við eigum að nota og hvað við eigum ekki að nota finnst mér varhugavert. Mér finnst að við eigum að treysta því fólki sem hefur menntun og færni til að ákveða hvaða kennsluaðferðum það beitir, hvaða hugmyndafræði það styðst við og hvað stefnu skólayfirvöld í hverju samfélagi og í hverjum grunnskóla ákveða. Mér finnst ekki að Alþingi eigi að ákveða hvað ákveðinn grunnskóli leggur stund á og hans stefnumótun. Mér finnst það vera í höndum annarra þó að Alþingi geti vissulega beitt sér fyrir því og haft áhyggjur af stöðunni — sem fagfólk hefur líka en það er að vinna vinnuna sína og gera sitt besta í því að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda og ólíka hópa.