153. löggjafarþing — 16. fundur,  13. okt. 2022.

niðurfelling námslána.

155. mál
[14:15]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Þetta er einfalt mál til þingsályktunar um niðurfellingu námslána eða réttara sagt heimild til niðurfellingar námslána, það er lengri titillinn, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að leggja til breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna [...] til þess að heimila niðurfellingu námslána, að hluta eða að öllu leyti, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem geta verið almenn, eins og að umbreyta hluta af eldri lánum í námsstyrk, vegna efnahagsástands, eða sértæk eins og vegna alvarlegra og varanlegra veikinda lántaka.“

Ég geri ráð fyrir stuttum fresti ráðherra til að leggja þetta fram því þetta ætti ekki að vera of flókið. En ástæðan fyrir því að ég legg þetta fram sem þingsályktunartillögu en ekki beint sem lagafrumvarp er vegna þessara matskenndu skilyrða sem ættu að liggja á bak við það hvort tilefni sé til að beita niðurfellingu á námslán að hluta til eða öllu leyti, þá annaðhvort á almennan hátt eða sértækan. Til dæmis gekk leiðréttingin árið 2016, sem sagt leiðréttingin vegna hrunsins, út á að leiðrétta verðbólguskotin húsnæðislán. Ég skil ekki af hverju námslán voru ekki leiðrétt, t.d. af því að það er einfaldlega ekki heimild til þess, kannski hefur verið heimild til að greiða sérstaklega inn á höfuðstólinn en ekki til að fella niður lán. Það einfaldlega vantar þá heimild.

Þetta er þingmál sem kom upp úr umræðum hjá hópi námslánataka á fésbókinni þar sem sögð var saga af ákveðnu ferli, lærdómsferli og veikindaferli líka, þar sem Menntasjóður námsmanna var beðinn um að taka tillit til ákveðinna aðstæðna varðandi afborganir og þess háttar, en svörin voru einfaldlega bara tilvísun í lög: Við höfum ekki heimild til þess að fella niður lánin að hluta eða öllu leyti. Þess vegna ættu viðbrögð okkar hérna á þingi að vera þau að gefa heimild, að heimild sé til að fella niður lán að hluta eða öllu leyti ef aðstæður eru til staðar.

Námslán og námsstyrkur eru í rauninni fjárfesting hins opinbera í menntun landsmanna. Sú fjárfesting er ekki óskyld styrkjum til nýsköpunar. Það er ekki óalgengt að nýsköpunarverkefni heppnist ekki sem skyldi, en það kemur þó ekki í veg fyrir áframhaldandi styrki til nýsköpunar því á heildina litið er sú fjárfesting arðbær. Það sama á að gilda um námsstyrki. Með nýjum lögum um Menntasjóð námsmanna bættist við heimild til að umbreyta hluta af námsláni í námsstyrk að uppfylltum ákveðnum skilyrðum að námi loknu. Tillaga þessi snýr að því að allir lántakar, óháð því hvenær þeir tóku námslán, fái möguleika á sambærilegri niðurfellingu námsláns vegna almennra eða sértækra ástæðna. Stundum gerast óvæntir atburðir sem leiða til erfiðleika við að standa skil á greiðslu námslána eða breyta forsendum þess að hægt sé að hagnýta námið á einn eða annan hátt. Það væri eðlilegt í slíkum kringumstæðum að til væri lagaheimild til að fella niður lán að hluta eða öllu leyti.

Flutningsmenn eru ég og hv. þingmenn Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Ég mæli með að nefndin renni þessu máli í gegn. Þetta ættu að vera auðveld skilaboð til ráðherra að afgreiða þannig að ég vonast til að þetta klárist hratt.