154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

breyting á ýmsum lögum til að bæta stöðu kynsegin fólks.

103. mál
[15:55]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um bætta stöðu kynsegin fólks sem er ætlað að taka á nokkrum litlum og einföldum atriðum sem bæði draga úr óþörfum stjórnsýsluhindrunum og auka öryggi kynsegin fólks. Þetta er í grófum dráttum fjórþætt.

Í fyrsta lagi er lagt til að fólk geti breytt öllu nafninu sínu án hindrana, en í dag gildir það bara um fornöfn. Í öðru lagi er lagt til að fólk með kynhlutlausa skráningu í þjóðskrá geti fengið aukavegabréf með karl- eða kvenskráningu ef því sjálfu þykir það betur geta tryggt öryggi þess á ferðalögum. Í þriðja lagi er lagt til að auðveldara verði að breyta kynskráningu oftar en einu sinni og að það þurfi ekki að rökstyðja sérstaklega eins og er í lögum í dag heldur þurfi einfaldlega að láta tíma líða á milli breytinga. Í fjórða lagi er lagt til að ekkert gjald verði innheimt vegna nýrra persónuskilríkja sem fylgja breyttri kynskráningu.

Þetta er allt að mati okkar flutningsmanna augljósar úrbætur, lagfæringar á atriðum sem hafa komið í ljós þegar fór að reyna á lög um kynrænt sjálfræði. Þetta er það sem ég myndi segja að væru atriði sem liggja hér eins og fiskur í tunnu og bíða þess að við grípum þau og gerum að lögum.

Mig langar að fara yfir það lið fyrir lið hvað felst nákvæmlega í ólíkum greinum frumvarpsins. Mig langar að setja þetta í samhengi við þær lagfæringar sem hafa nú þegar verið gerðar á lögunum og fara aðeins yfir söguna, vegna þess að þegar lög um kynrænt sjálfræði voru sett fyrir næstum fimm árum voru þau stórt skref fram á við. Þau voru ekki hinn endanlegi áfangastaður heldur lá alltaf fyrir að það þyrfti frekari úrbætur. Þar voru ákveðin atriði sem var beðið með að klára og voru falin inni í frekari vinnu samkvæmt bráðabirgðaákvæðum.

Þegar þú ert með nýja heildarlöggjöf og fer að reyna á hana koma í ljós atriði sem frumvarpshöfundum hafði ekki dottið í hug. Svo breytist samfélagið líka. Þarfir breytast. Þannig er t.d. búið að gera þrjár breytingar á þessum lögum á grundvelli bráðabirgðaákvæða. Aldursviðmiðum var breytt samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II. Barnalögum var breytt til að taka tillit til foreldrastöðu fólks með kynhlutlausa skráningu samkvæmt sama bráðabirgðaákvæði. Í samræmi við ákvæði til bráðabirgða I í lögunum var samþykkt frumvarp um stöðu barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni.

Þetta voru fyrirséðu breytingarnar 2019 en ófyrirséðu breytingarnar sem hafa verið gerðar frá því að lögin voru samþykkt eru tvær, þær eru ekki jafnmargar. Áður en lögin tóku gildi, minnir mig, var bætt inn ákvæði um að þau næðu líka til íslenskra ríkisborgara sem búsettir eru erlendis þannig að fólk á erlendri grundu gæti nýtt sér lög um kynrænt sjálfræði. Síðan afnámum við stuttu eftir að lögin tóku gildi gjaldtöku fyrir að leiðrétta kynskráningu í þjóðskrá. Það er gott dæmi um það sem við erum að ræða hér, annmarka sem koma ekki í ljós fyrr en lögin eru komin af stað í byrjun janúar 2019. Þá rak fólk sig á það, þegar það mætti upp í þjóðskrá og vildi breyta kynskráningu, að það var rukkað um 9.000 kr., sem þingfólkinu sem samþykkti lögin virtist ekki ýkja há upphæð.

Í fyrsta lagi er það grundvallarmannréttindamál að fólk geti skilgreint kyn sitt sjálft í samræmi við það sem var samþykkt með lögum um kynrænt sjálfræði. Þá fylgir ýmis kostnaður því að fara gegnum kynstaðfestandi ferli og þetta er oft og tíðum afskaplega jaðarsettur hópur og illa staddur efnahagslega. Því sammæltist Alþingi á vormánuðum 2019 um það að fella úr gildi það sem við höfum kallað transskatt. Þetta var lagfæring sem var nauðsynleg og við náðum saman um. Ég vona að hið sama gerist með sem flest af því sem lagt er til í þessu frumvarpi.

En að frumvarpsgreinunum sjálfum. 1. gr. snýst um að kynskráning hafi ekki áhrif á það hvers konar foreldrisnöfn fólk geti valið sér. Þetta er breyting á mannanafnalögum þannig að við leiðréttum skekkju sem fylgdi því að með lögum um kynrænt sjálfræði var fólki gefið sjálfdæmi um það hvers konar fornöfn það velji sér. Ég mætti heita Andrés en taka síðan upp nafnið Steinunn vegna þess að það er ekkert sem heitir kynjuð fornöfn lengur. Við höfum algjört sjálfdæmi um þetta. En þegar kemur að því að taka upp sveigjanleg eftirnöfn, foreldrisnöfn, þá einskorðast það samkvæmt lögum við fólk sem hefur hlutlausa kynskráningu. Ef við viljum nota -bur í stað -son eða -dóttir, eða sleppa endingunni, þá þarf skráning einstaklings að vera hlutlaus í þjóðskrá. Reynslan sýnir okkur að fólk veigrar sér oft við að gera þetta. Það er vegna þess að enn er ýmis þjónusta kynjuð í kerfinu okkar. Það er vankantur sem þarf að sníða af kerfinu. Til dæmis er ýmis heilbrigðisþjónusta, sem fólk í kynstaðfestingarferli þarf að nýta sér, háð því að þau hafi einhverja tiltekna kynskráningu. Þetta er verið að skoða í heilbrigðisráðuneyti.

Vegna þess að þetta er enn ekki komið í lag, svo löngu eftir að lög um kynrænt sjálfræði voru staðfest, er fullt af fólki sem hefur enn kynskráningu sem er ekki í samræmi við það sem það vildi, einfaldlega vegna þess að þjónustan sem er í boði miðast við þessa skráningu. Fyrir vikið getur það ekki heldur tekið upp nafnið sem það vill. Það er mikilvægur hluti af rétti fólks til að skilgreina kyn sitt sjálft, og skilgreina sig sjálft, að hafa sjálfdæmi um það hvernig nafnið þróast. Þess vegna orkar tvímælis að við höfum þessi vel hugsuðu lög um kynrænt sjálfræði — sem snúast um það að setja vald í hendur einstaklinganna sem sjálf vita best hvar þau standa inni í sér varðandi það hvernig þau vilja skilgreina sig út á við, bæði út frá kynskráningu og nafni — en njörvum eftirnöfnin niður eins mikið og raun ber vitni. Hér er lagt til að allar útgáfur foreldrisnafna, hvort sem þau enda á -son, -dóttir eða -bur eða eru án endingar, standi einstaklingum til boða óháð kynskráningu. Það er einföld og lógísk breyting á mannanafnalögum.

Þá að 2. gr. frumvarpsins. Þetta er annað dæmi um það hvers vegna fólk stígur oft ekki það skref að velja kynskráningu í samræmi við það sem því líður best með vegna einhvers sem stjórnsýslan býður upp á. Staðan er nefnilega sú að ef þú hefur hlutlausa skráningu færðu vegabréf þar sem það kemur fram. Þá færðu opinber skilríki, einu opinberu ferðaskilríkin sem standa þér til boða, þar sem kynseginleiki þinn er skráður svart á hvítu. Þegar þú kemur á landamærastöð þarftu að sýna verði þessi skilríki. Ef lögregla stoppar þig einhvers staðar erlendis þarftu að sýna þessi skilríki.

Forseti. Við vitum það að staða kynseginmála er mjög misgóð eftir löndum. Fyrir vikið myndi það hamla ferðafrelsi fólks verulega að hafa vegabréf sem það er stundum logandi hrætt við að sýna fólki. Við þurfum ekkert að leita til ríkja sem eru þekkt fyrir að vera undir stjórn einhverra rugludalla. Jú, kannski. Tökum einstök fylki Bandaríkjanna. Myndirðu treysta þér til að fara til Flórída á næstu árum ef þú hefðir skilríki þar sem fram kæmi svart á hvítu að þú værir kynsegin? Ég er ekki viss.

Hvað getum við þá gert? Það fyrsta sem mér datt í hug þegar mér var bent á þetta vandamál er kannski einfaldasta leiðin. Við gætum kveðið á um það að í íslenskum skilríkjum væri kyn ekki tiltekið. Það er kannski framtíðarmúsík. Það sem kom í ljós þegar við fórum að grennslast fyrir um þetta er að Alþjóðaflugmálastofnunin er ekki nógu sveigjanleg varðandi það. Kyn er hluti af því sem er grunnskráning í vegabréfum og þar með erum við föst í ákveðnum ramma.

Þess vegna leggjum við til í þessu frumvarpi — á maður ekki að segja skítamix? Ég held það. Þetta er eiginlega ekkert annað. Þetta er leið fyrir ríkið til að finna skapandi lausn á vanda innan þess ramma sem alþjóðaregluverk setur okkur. Við leggjum til að heimilt verði að gefa út aukavegabréf til fólks sem hefur ástæðu til að óttast að kynhlutlaus skráning í vegabréfi verði því til ama á ferðalögum. Leggjum það í hendurnar á einstaklingunum að meta hvort þau væru öruggari á ferðalagi með viðbótarvegabréf í höndunum þar sem stendur „Karl“ eða „Kona“, og þau gætu flaggað því þegar þeim líst ekki á lögguna sem þau mæta.

Það eru fordæmi fyrir þessu. Það er einfaldlega svo að á síðustu árum, frá árinu 2015 til 2022, voru um 1.000 beiðnir um aukavegabréf afgreiddar samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands. Þau vegabréf voru oftast vegna atvinnu fólks, sérstaklega vegna tíðra ferða til landa sem krefjast vegabréfsáritunar þannig að fólk verði ekki innlyksa á Íslandi þó að vegabréfið sé í Noregi hjá einhverju sendiráði vegna vegabréfsáritunar.

Svo eigum við líka dæmi um aukavegabréf sem eru gagngert gefin út til að tryggja öryggi fólks á ferðalögum. Það er nefnilega þannig að í þessum sal er hópur sem á rétt á slíku vegabréfi. Hér er ég með vegabréfin mín tvö. Hér er venjulegt vegabréf eins og við eigum öll. Svo er hér þjónustuvegabréf sem þingmenn geta fengið, m.a. til að geta flaggað því ef við lendum í höndunum á leiðinlegum yfirvöldum í löndum þar sem lýðræðið er ekki haft í jafnmiklum hávegum og hjá okkur. Aukavegabréf til að tryggja öryggi fólks á ferðalögum er þekkt stærð. Við viljum útvíkka þá nálgun ríkisins aðeins, þannig að hún nái ekki bara til þess forréttindahóps sem situr hér á þingi heldur líka til jaðarsetts hóps sem við vitum að getur verið í hættu á ferðalögum víða um lönd.

Þá að 3. gr. frumvarpsins. Hún snýst um það að einfalda fólki að breyta kynskráningu oftar en einu sinni. Ákvæðið í lögum um kynrænt sjálfræði er eftiröpun af ákvæði sem hefur verið lengi í mannanafnalögum, þar sem kveðið er á um að það megi breyta nafni einu sinni — en það má breyta því oftar ef þú biður ógeðslega fallega. Ef þú rökstyður það og segir af hverju þú þarft að breyta því aftur geturðu fengið leyfi til þess.

Ég ætla ekkert að elta ólar við ákvæði í mannanafnalögum. Mig langar bara að vera með fókus á lög um kynrænt sjálfræði. Fyrir það fyrsta er markmiðsákvæði laga um kynrænt sjálfræði að tryggja rétt fólks til að skilgreina kyn sitt sjálft. Það gengur hreinlega gegn þeim rétti að við setjum því mjög þröngar skorður hvort fólk geti breytt skráningu oftar en einu sinni. Það er einn þáttur. Annar er sá að fólk sem nýtir sér þau réttindi sem lög um kynrænt sjálfræði veita lendir ekki alltaf í fyrsta skrefi á þeim stað þar sem það verður um aldur og ævi. Það er eðlilegt að einstaklingur sem við fæðingu er skráður karl fari á einhverjum tímapunkti í hlutlausa skráningu en uppgötvi síðan að einhverjum tíma liðnum að eðlilegra væri að vera skráð sem kona. Þetta er ferli sem fólk fer gegnum, mjög persónulegt ferli og ólíkt eftir því um hvaða einstaklinga er að ræða. Þess vegna eigum við að láta það í hendurnar á þeim að meta þetta sjálf. Til að koma til móts við fólk sem óttast að við þetta bresti á einhver galskapur í liðinu og fólk fari að breyta kynskráningu hægri vinstri var sett einföld tímabremsa. Þegar ár er liðið frá því að þú breyttir kynskráningu geturðu gert það aftur án þess að biðja sérstaklega um leyfi. Það sé þitt að ákveða breytingu númer tvö, alveg eins og það var þitt að ákveða breytingu númer eitt.

Þá að 4. og 5. gr. 4. gr. snýst um að útgáfa aukavegabréfa til fólks með hlutlausa skráningu verði gjaldfrjáls — alveg eins og reyndar aukavegabréfin sem við þingmenn fáum, þau eru frí — og að öll persónuskilríki sem hið opinbera gefur út sem nauðsynlegt er að breyta þegar fólk skiptir um kynskráningu og nafn verði gjaldfrjáls sömuleiðis. Þá erum við að tala um vegabréf, ökuskírteini og nafnskírteini.

Þetta eru efnisgreinar frumvarpsins. Ég undirstrika við forseta að þetta frumvarp sprettur upp úr samtölum við fólk sem stólar á þessi lög. Þetta sprettur upp úr ákalli frá einstaklingum sem óttast um öryggi sitt á ferðalögum og frá fjölskyldum þeirra. Þetta er afurð þess að fólk sem hefur rekið sig á stjórnsýsluhindranir vill fá úr þeim bætt.

Ég legg þetta mál fram til að styrkja rétt fólks til að skilgreina kyn sitt sjálft. Við sem stöndum að því viljum auka öryggi kvára og stálpa á ferðalagi. Við viljum einfalda líf fólks sem á undir högg að sækja í samfélagi okkar, sem hefur orðið svo ofboðslega augljóst á undanförnum vikum sérstaklega. Það bakslag sem við höfum orðið vitni að í málefnum hinsegin fólks á síðustu vikum er sárgrætilegt og eitthvað sem við þurfum að spyrna á móti. Eitt af því sem Alþingi Íslendinga getur gert til að spyrna á móti bakslaginu er að stíga skref fram á við, eins og að samþykkja þetta frumvarp. Ég beini því til allsherjar- og menntamálanefndar að afgreiða það vel og örugglega.