154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

sorgarleyfi.

264. mál
[16:35]
Horfa

Flm. (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um sorgarleyfi. Ár hvert verða um 100 börn á Íslandi fyrir því þunga áfalli að missa foreldri sitt. Á árunum 2009–2018 misstu 1.007 börn á Íslandi foreldri samkvæmt fyrirliggjandi tölum Hagstofunnar. Þetta voru 525 strákar og 482 stelpur, börn undir 18 ára aldri. Á þessu sama árabili, þ.e. 2009–2018, þá létust 649 foreldrar barna, í mörgum tilvikum frá fleiri en einu barni. Feður voru í meiri hluta, þeir voru 448 talsins en mæður 201. Um 40% foreldranna létust úr krabbameinum, næstalgengast var að foreldri létist vegna svokallaðra ytri orsaka, áverka og eitrana, í rúmlega 30% tilvika. Tveir undirflokkar dauðsfalla af völdum ytri orsaka voru skoðaðir sérstaklega. Annars vegar var þarna um að ræða óhöpp og hins vegar sjálfsvíg, þannig að meiri hluti foreldranna sem létust af þessum svokölluðum ytri orsökum létust af völdum sjálfsvígs, eða rúmlega 100 talsins. Það er auðvitað sláandi að langalgengasta dánarorsök ungra mæðra og feðra, foreldra sem voru undir 29 ára aldri, voru þessar svokölluðu ytri orsakir. Þessi staðreynd er auðvitað efni í sérstaka umræðu en við sjáum af þessum gögnum Hagstofunnar að það eru sem sagt að jafnaði um 100 börn á Íslandi á ári hverju sem missa foreldri sitt.

Virðulegi forseti. Öll þekkjum við til þessara barna og þessara fjölskyldna. Þau geta verið innan fjölskyldunnar, þau eru meðal vina okkar eða í skóla barnanna okkar og öll held ég að við skiljum mjög vel að hér er um að ræða þungt áfall fyrir hvert og eitt barn sem upplifir það að missa foreldri. Öll held ég að við skiljum að eftir stendur annað foreldri eða annar náinn aðstandandi í erfiðri og flókinni stöðu. Þannig að tilgangur og markmið þessa frumvarps er að viðurkenna áhrif missis og sorgar á fjölskyldur og á þá einstaklinga sem standa nærri í kjölfar þess að barn missir foreldri sitt. Markmiðið að baki þessu frumvarpi mínu er að löggjafinn styðji við þessar fjölskyldur á viðkvæmum tíma í lífi þeirra, gefi þeim rými og gefi þeim næði með þessum hætti fyrir þá sem það kjósa því það skiptir auðvitað máli þegar við erum að ræða um lagaheimild til töku sorgarleyfis að hérna er auðvitað bara um heimild að ræða. Einhverjir í þessum hópi þessara fjölskyldna myndu notfæra sér þá heimild en ekki endilega allir. Markmiðið er að gefa sambúðarmaka eða öðrum nánum aðstandanda heimild til að taka sér leyfi frá störfum á launum í sex mánuði og greidd verði 80% launa en þó með tilgreindu þaki um hámarksgreiðslur. Sorgarleyfi felur sem sagt í sér leyfi frá launuðum störfum á innlendum vinnumarkaði í kjölfar þess að einstaklingur missir maka sinn sem hann á barn eða börn með undir 18 ára aldri.

Það var stigið stórt skref á Alþingi þegar samþykkt voru lög um sorgarleyfi fyrir foreldra sem missa barn með lögum nr. 77/2022. Það er auðvitað líka staða sem við skiljum öll, þá nístandi sorg sem barnsmissir er og að þörf geti þá verið á því að fá leyfi frá störfum í kjölfarið. Sömu röksemdir eiga að mínu viti líka við hér en til viðbótar má nefna að hér er um að ræða sérstakan stuðning við börn í þessu tilviki, börn sem hafa upplifað þungt áfall og missi. Þegar það mál var hér til umræðu á Alþingi, þ.e. sorgarleyfi fyrir foreldra sem missa barn, þá tók ég til máls til að lýsa yfir stuðningi mínum við það mjög svo góða þingmál en ég nefndi þó jafnframt að sá stuðningur hlyti að eiga líka við þau börn sem missa foreldri. Við erum með löggjöf frá Alþingi sem Alþingi hefur afgreitt, sem sagt um stuðning við þá foreldra sem missa börn; eigum að mínu viti eftir að stíga skrefið og útfæra lögin þannig að börn sem missa foreldri njóti sömu réttinda. Hérna er sem sagt verið að leggja það til að réttur foreldra barna undir 18 ára aldri sé lagður að jöfnu við þau réttindi sem foreldrum sem missa barn voru færð með þessum lögum. Það skiptir miklu að styðja eftirlifandi foreldri barna á þann hátt sem lög um sorgarleyfi veita nú þegar foreldrum sem hafa misst barn og á sama hátt skiptir miklu að þau börn sem hafa misst foreldri fái notið þessa stuðnings, því ég held að öllum geti verið ljóst hversu þung staða fjölskyldna er þegar foreldri barns fellur frá.

Það þarf ekki að fjölyrða um það hversu sár sá missir er fyrir það barn sem missir foreldri sitt, né þarf að fjölyrða um það hversu þungbært það er fyrir foreldrið sem eftir stendur, eða að því fylgir álag fyrir fjölskylduna og aðstandendur í heild sinni og ekki síst fyrst um sinn. Í ofanálag kemur stundum til tekjumissir heimilis og í einhverjum tilvikum fjárhagsáhyggjur honum samhliða. Það á auðvitað ekki síst við þar sem foreldrar hafa verið í sambúð og eru ungir að árum. Ég held að það þurfi að horfa til þessara þátta, á hvaða æviskeiði eftirlifandi foreldri er því þetta er gjarnan á þeim tíma ævinnar þegar álag er mikið, vinnubyrði þung, útgjöld heimilis hlutfallslega mikil og þetta er sá hópur syrgjenda sem raunveruleg hætta er á að hafi einfaldlega ekki tök á því að taka sér veikindaleyfi eftir andlát maka, eins og raunar kemur fram í umsögn frá Sorgarmiðstöð sem eru þeir aðilar sem hvað best til þekkja.

Það er í mínum huga engin ástæða til að bíða með það að veita þessum fjölskyldum núna þennan mikilvæga stuðning sem fólst í áðurnefndri lagasetningu og þá í þágu foreldra sem höfðu misst barn. Sjónarmið barnasáttmálans eru vegvísir í þessu frumvarpi og voru umsagnir m.a. Sorgarmiðstöðvar og Krabbameinsfélags Íslands um frumvarpið á sínum tíma mjög afdráttarlausar um mikilvægi þess að lögin næðu til fleiri fjölskyldna, sérstaklega þegar foreldri missir maka sinn frá barni eða börnum, þannig að strax þegar Alþingi var með það mál til meðferðar komu fram umsagnir frá Sorgarmiðstöð og Krabbameinsfélaginu þar sem þessari lagasetningu var fagnað en bent á að vel færi á því að útvíkka lagasetninguna.

Virðulegi forseti. Mig langar til að nefna strax hér að aðstæður barna sem missa foreldri sitt eru auðvitað mjög misjafnar, aðstæður sem og fjölskyldumynstur. Oft er það svo þegar barn missir annað foreldrið að þá er eftirlifandi foreldri jafnframt að missa maka sinn, þannig er það oft en ekki endilega alltaf. Í frumvarpinu er leitast við að taka tillit til þess að fjölskylduaðstæður eru ólíkar og í frumvarpinu er foreldri skilgreint þannig með tilliti til þessa, eins og raunar þegar ég lagði málið fyrst fram. Hugtakið foreldri er sem sagt skilgreint með sama hætti og gert er í lögum um sorgarleyfi og hugtakið foreldri er skilgreint með víðari hætti en almennt séð í lögum. Í lögum um sorgarleyfi er hugtakið foreldri skilgreint þannig að það taki til foreldra, að það taki til forsjáraðila og það taki til einstaklinga sem hafi gegnt foreldraskyldum gagnvart barni í ár eða lengur fyrir missinn. Og sú skilgreining á einnig við í því frumvarpi sem ég er hér að leggja til, eins og ég segi, með þessum hætti að hugtakið sé víðfeðmara en almennt séð í lögum, að það sé annars vegar verið að horfa á maka, sambúðarmaka eða einhvern þann forsjáraðila sem stendur barninu svo nærri að hagsmunir standi til þess að þessi réttur skapist. Markmiðið er sem sagt að ná utan um það að ekki öll börn sem missa foreldri sitt búa með báðum foreldrum sínum, eftirlifandi foreldri þeirra er ekki alltaf að missa maka. Það skiptir í mínum huga máli að réttarbót sem þessi nái utan um þær veruleikaaðstæður barna og fjölskyldumynstur sem eru ólík. Það er jafnframt lagt til að skilgreining hugtaksins foreldris breytist á þann hátt að aðrir en foreldrar eða forsjáraðilar teljist einnig foreldrar í skilningi laganna.

Virðulegi forseti. Með sorgarleyfi er verið að tala um launað leyfi frá störfum í kjölfar þess að einstaklingur missir maka sinn sem hann á barn eða börn með sem eru undir 18 ára aldri. Sem fyrr segir er hér um fremur afmarkaðan hóp að ræða. Að jafnaði eru um 100 börn á Íslandi sem upplifa það að missa foreldri og frumvarpinu er sem sagt ætlað að rýmka núgildandi lög um sorgarleyfi og veita fjölskyldum þýðingarmikinn stuðning á afar viðkvæmum tíma í lífi þeirra og fjárhagsstuðning þannig að það skapist raunverulegur kostur á því að taka leyfi frá störfum án þess að það þýði tekjufall.

Ég gerði grein fyrir sjónarmiðum um hámarksgreiðslu í frumvarpinu. Þar er hliðstæðan líka núverandi lagasetning, að mánaðarleg greiðsla skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna en 600.000 kr. hámark á mánuði. Frumvarpið tekur líka, rétt eins og núgildandi löggjöf, til foreldra sem standa utan vinnumarkaðar eða eru í minna en 25% starfshlutfalli, svo sem í tilvikum þar sem um námsmenn er að ræða að þá sé tryggður svokallaður sorgarstyrkur. Það er líka miðað við ákveðinn sveigjanleika; að foreldrar geti nýtt sér rétt til sorgarleyfis samhliða skertu starfshlutfalli og lengt þannig í tímabili leyfisins.

Allur þessi réttur yrði þá samkvæmt frumvarpinu hinn sami og er í núgildandi lögum fyrir þá foreldra sem missa barn; að réttindi foreldra í þessum aðstæðum séu þannig að öllu leyti sambærileg réttarstöðu þeirra foreldra sem misst hafa barn. Sorgarleyfi muni þannig fela í sér mánaðarlegar greiðslur yfir ákveðið tímabil til einstaklinga sem verða fyrir makamissi og eiga barn eða börn undir 18 ára aldri, en foreldrar í þessari stöðu eru í dag alfarið háðir skilningi og kannski frekar alfarið háðir getu vinnuveitenda um að veita leyfi. Þeir eru algerlega háðir því að vinnuveitandi hafi svigrúm til að veita frí eða sveigjanleika þegar sorgin knýr dyra og það á auðvitað ekki að þurfa að vera háð því að vinnuveitandi hafi burði til að veita svigrúm í kjölfar svona áfalls. Við erum sterkt samfélag á Íslandi og eigum sem samfélag að geta staðið með og stutt börn og fjölskyldur á erfiðum tímum eins og þessum.

Virðulegi forseti. Frumvarpið var lagt fram á 153. löggjafarþingi en varð því miður ekki afgreitt þá. Við meðferð málsins bárust hins vegar jákvæðar umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, BHM, BSRB, Sorgarmiðstöðinni og fleiri aðilum, m.a. ágætt bréf frá prestum og aðstandendum sem fjölluðu einmitt um það að aðstæður barna sem missa foreldri eru ólíkar og ég lít svo á að frumvarpið hafi hvað mig varðar leitast við að ná einmitt utan um það. Flutningsmaður er meðvituð um að börn búa ekki alltaf hjá báðum foreldrum og stundum er uppalandi jafnvel annar, amma eða afi eða annar náinn aðstandandi. Frumvarpið er núna lagt fram aftur óbreytt og svo ég endurtaki það þá er grunnhugmyndin að baki því einfaldlega sú að eftirlifandi foreldri eða aðstandandi barns fái svigrúm til sorgarúrvinnslu og svigrúm til að vera til staðar fyrir barn sitt eða börn eftir andlát makans. Þær réttarbætur sem eru lagðar til hér eru því ekki síst hugsaðar með hagsmuni barnsins í huga en um leið auðvitað eftirlifandi foreldris að leiðarljósi í þeim tilvikum þar sem það á við. Greiðslurnar yrðu á meðan á þessu leyfi stendur frá Vinnumálastofnun.

Ég er þeirrar skoðunar að hér sé fram komið mál sem við á Alþingi ættum að geta sameinast þverpólitískt um að afgreiða. Hvað kostnaðinn varðar — ég held að það megi nú kannski ávarpa það sérstaklega hér á verðbólgutímum — þá er annars vegar um að ræða afmarkaða tímabundna heimild fyrir fólk í þessari stöðu til að fá þessar greiðslur. Þegar haft er í huga að það eru um 100 börn á ári sem missa foreldri, færri foreldrar þar að baki, þá blasir strax við að hér er ekki um óheyrilegar upphæðir að ræða en á sama tíma um verulegan fjárhagslegan stuðning en líka táknrænan af hálfu samfélagsins að ræða. Það skiptir miklu að styðja við börn sem missa foreldri og að styðja við einstaklinga sem eru að missa maka frá ungum börnum. Með því fá foreldrar barna eða uppalendur nauðsynlegt svigrúm til að styðja við börn sín og fjölskylduna í heild. Og ég vil aftur nefna það að við þekkjum öll þessar fjölskyldur og þessar sögur og þekkjum öll þá tilfinningu strax í kjölfarið að vilja verið til staðar.

Ég held að með því að vinna þetta mál frekar og vonandi að gera það að lögum þá geti samfélagi stigið mjög sterkt, þýðingarmikið og táknrænt skref í þeim efnum. Ég óska eftir því að málinu verði vísað til velferðarnefndar og vona svo sannarlega að nefndin geti tekið þverpólitíska afstöðu í þessu máli. Ég get ekki séð að þetta sé mál sem eigi ekki að vera hægt að vinna þvert á flokka eða þvert á stjórn og stjórnarandstöðu og ég á mér þá von að Alþingi geti stutt þessa einföldu en þýðingarmiklu lagabreytingu.