154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

sorgarleyfi.

264. mál
[16:53]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og ég tek alveg undir með henni að þetta er afskaplega mikilvægt mál og málið sem við afgreiddum hérna, eins og komið var inn á síðast, er varðar börnin var gríðarlega mikil réttindabót. Við þekkjum kannski því miður of margt fólk sem hefur verið í þessari stöðu og auðvitað, eins og þingmaðurinn kom inn á, misjöfn þeirra fjárhagsstaða. Hún er sannarlega eðli máls samkvæmt þannig en það breytir því ekki að allir takast á við þá sorg sem fylgir því að missa foreldri eða maka og þurfa tíma til að takast á við það. Ég er hlynnt þessu máli og hef rætt þetta við minn ráðherra áður af því að ég tel að, alla vega eins og hv. þingmaður nefndi, þverpólitísk samstaða sé um það, þetta er a.m.k. þess eðlis að það er mjög mikilvægt að það verði skoðað vel og ef einhverjum þykja annmarkar á því að þeir komi þá fram.

Þannig að ég vil nú lýsa stuðningi mínum við málið í sjálfu sér án þess að ég hafi farið ofan í umsagnir fyrri þinga sem þingmaðurinn segir að séu bara jákvæðar, og ég trúi því svo sem að þær séu það. Þegar við erum að velta fyrir okkur fjárhagslegum stuðningi og hann komi úr ríkissjóði, þá má líka velta upp hinni hlið peningsins, þ.e. ef fólk fær ekki fjárhagslegan stuðning sem það þarf sannarlega á að halda, hvort heldur það er að geta farið hægt út á vinnumarkaðinn, geta tekið það í einhverjum áföngum ef þörf er á, nú eða verið alfarið frá í einhvern tiltekinn tíma en vera ekki með fjárhagsáhyggjur. Ég myndi halda að ef fólk eins og í dag nýtur einskis stuðnings að það komi kannski fram annars staðar í kerfinu, ég held að það geti bara vel verið.

Auðvitað veit maður að einhverjir sækja í sína sjúkrasjóði sem eiga rétt á því og það er mikilvægt að halda því til haga að það er einhver leið sem er undirliggjandi en ég skil tilganginn hér að þessum aðilum sé bara beinlínis gert það kleift að þurfa ekki að hugsa um það heldur sé þetta eitthvað sem tekur við.

Það er auðvitað vel að hugsa það þannig. Svo er auðvitað líka spurning hvort þetta geti tvinnast einhvern tíma saman og ég tel að það sé líka mikilvægt að huga að þeim sem eru í námi eða eru í litlu starfshlutfalli, ekki síst held ég að það geti átt við um konur þó að það geti líka eðlilega átt við alla aðila. Þá held ég að þetta geti og komi jafnan kannski — alla vega þar sem ég þekki til, þá hefur það verið þannig — verr niður á konum þegar karlar falla frá og það er bara því miður ójafnrétti í okkar samfélag launalega, sem og annað sem kannski kemur þar við sögu.

Þingmaðurinn rakti þetta mál ágætlega, ég man að þetta kom til umfjöllunar síðast þegar við vorum að ræða hitt málið er varðar börnin. Kannski þyrfti þetta verða rýmra en það mál var en það var sannarlega áfangi og kannski er það bara svoleiðis að við þurfum alltaf að taka þessi smáu skref þangað til að við náum að rétta af og gera samfélagið okkar réttlátara. Ég alla vega fæ þetta mál inn í nefndina mína og við sjáum til hvort þetta fær ekki þá umfjöllun sem hv. þingmaður og framsögumaður nefndi hér.