139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

fundarstjórn.

[12:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið margítrekað að málið sé í vinnslu. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sagði að í raun væri ekki nema mánuður frá því að formlega var tekin ákvörðun um að halda ætti fund. Þykir hæstv. forseta eðlilegt að mál séu svo lengi í vinnslu að það hafi tekið hvort heldur sem er einn mánuð eða tvo mánuði að vinna í þessu máli? Hvað þykir hæstv. forseta þá eðlilegt að verði unnið lengi í því í viðbót?

Í fyrradag upplýsti hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir að hún hefði í mánuð verið að reyna að fá hæstv. utanríkisráðherra til fundar við nefnd sína. Sama dag upplýsti hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir að utanríkisráðherra hefði sjálfur haft frumkvæði að því að biðja um að mæta á fund utanríkismálanefndar. Spurningin er: Getur ekki hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir (Forseti hringir.) þá hlutast til um það að fá hæstv. utanríkisráðherra á fund (Forseti hringir.) með utanríkismálanefnd og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd?