139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[14:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi hnykkja aðeins á þessu. Undanfarin tvö ár hef ég átt sæti í umhverfisnefnd þingsins og á þeim tíma höfum við fjallað um fjölmörg frumvörp sem bæði fela í sér breytingar á eldri ákvæðum sem og ný ákvæði sem snerta nýtingu lands og auðlinda með einum eða öðrum hætti. Við getum verið að tala um skipulagslög, við getum verið að tala um mannvirkjalög, við getum verið að tala um náttúruverndarlög, lög um mat á umhverfisáhrifum o.s.frv., nú kannski nýjast frumvarp til staðfestingar á ákvæðum Árósasamnings. Á sama tíma erum við að fjalla um rammaáætlun og ýmsar áætlanir sem hafa tiltekið gildi.

Ég verð að játa að þrátt fyrir að ég hafi varið töluverðum tíma í skoðun á þessum málum á undanförnum tveimur árum þá verð ég bara ringlaðri og ringlaðri í þessu lagaumhverfi. Það er kannski vandamál sem er bundið við mig en ég verð að játa að mér finnst myrkviðið í þessum efnum alltaf vera að þéttast og ég óttast, ef það er ekki bara bundið við mig og mína persónu þessar áhyggjur og þessi skortur á yfirsýn, að fyrir almenna borgara, einstaklinga og forsvarsmenn fyrirtækja, samtök sveitarfélaga eða einhverja slíka, sé þessi flækja líka stöðugt að verða óviðráðanlegri. Ég velti fyrir mér, þó að það hafi kannski ekki áhrif á afdrif þessa frumvarps, hvort hv. þingmaður er sammála mér um að við þurfum að fara (Forseti hringir.) í heildarskoðun á þessu þannig að við náum kannski að grisja þetta, ekki á kostnað vandvirkni (Forseti hringir.) og gæða heldur fyrst og fremst til að létta stjórnsýslu- og lagaumhverfi að þessu leyti.