145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:43]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við um nefndarálit og breytingartillögu við tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018. Ég tek undir orð formanns umhverfis- og samgöngunefndar, hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, að það sé fagnaðarefni að við skulum loks vera að ræða samgönguáætlun og við sjáum nú fyrir endann á þeirri mikilvægu vinnu. Því miður hefur okkur ekki tekist að klára samgönguáætlunina á þessu kjörtímabili og ætla ég ekki að rekja þá sögu, hún er okkur öllum kunn. En ég legg mikla áherslu á að við göngum frá henni í þessari atrennu.

Sveitarfélög um allt land og landshlutasamtök þeirra hafa kallað eftir þessu vinnuplaggi svo halda megi nauðsynlegum framkvæmdum gangandi og hefja aðrar. Við vitum öll að viðhald vega hefur verið langt frá því að vera viðunandi og ástand vegakerfisins er vægast sagt víða orðið ansi bágborið eftir langvarandi niðurskurð og litlar framkvæmdir. En með bættri stöðu ríkissjóðs er nú lag og gott tækifæri að bæta verulega í.

Það hlýtur að vera eitt af okkar meginverkefnum að bæta samgöngukerfið því að það er ein grunnstoð í því að viðhalda lífsgæðum landsmanna. Það tengir saman byggðir og stækkar atvinnusvæði, eykur öryggi og auðveldar allt samstarf milli sveitarfélaga sem hefur aukist mikið undanfarin ár. Það má líka benda á gríðarlega aukningu ferðamanna og þátt þeirra í auknu álagi á vegakerfið. Ef við ætlum í raun að dreifa þeim um landið og styrkja ferðamennsku um allt land þá er grunnforsendan sú að illfærir vegir hamli ekki för, nema við bjóðum bara upp á gönguferðir.

Það er allt sem kallar á úrbætur. Ég get vel tekið undir með þeim sem gagnrýnt hafa aðgerðaleysi í þessum málaflokki. Raunar heyrist mér að fullkomin samstaða sé meðal allra flokka um að gera betur og bæta verulega í. Það er því ánægjulegt að sjá þá viðbót sem meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar leggur til. Ein breytingartillagan leggur til aukningu um samtals 2 milljarða árin 2017 og 2018 til viðhalds vega, þannig verði 8 milljörðum í stað 7 varið í þennan flokk. Þá leggur meiri hlutinn einnig til að árin 2017 og 2018 verði árlega veittar 500 millj. kr. aukalega í malbikun tengivega og sömu fjárhæðir í breikkun brúa, auk 100 millj. kr. í framkvæmdir á héraðsvegum. Verkefnin eru næg og vil ég benda sérstaklega á uppsafnaða viðhaldsþörf á tengi- og héraðsvegum um allt land. Viðhald þeirra er afar mikilvægt umferðaröryggismál. Víða er allur ofaníburður löngu farinn og raun til lítils að hefla vegi þegar tækin skripla á grjóti.

Um allt land má finna leiðir þar sem ekið er með skólabörn við óviðunandi aðstæður og íbúar ýmissa sveita búa við afar vonda vegi. Horfa verður til þess að samgöngumál eru mikilvæg fyrir byggðaþróun í landinu og eru í raun forsenda þess að styrkja búsetu og eru forsenda fyrir fjölbreyttara atvinnulífi. Vegaframkvæmdir veita verktökum á hverju svæði vinnu sem skilar sér svo aftur til sveitarfélaganna.

Ég tek undir mat meiri hlutans sem telur brýnt að forgangsraða verkefnum þannig að umferðaröryggi sé í forgrunni. Þá vil ég benda á að auknar kröfur um merkingar hafa í för með sér aukinn kostnað. Eitt óveður getur orðið til þess að merkja þarf upp á nýtt, stika vegi og lagfæra. Með þessu þarf alltaf að reikna. Nútímakröfur leyfa ekki að beðið sé með það fram á vor eins og einhvern tímann tíðkaðist. Það er liðin tíð.

Hæstv. forseti. Mig langar líka að vekja athygli á tillögum meiri hlutans sem mér finnst ansi hreint góð, en hún lýtur að því að leggja til 300 millj. kr. árið 2018 sem byrjunarframlag til að finna leiðir til að tryggja rekstrargrundvöll innanlandsflugs og hóflegt farmiðaverð. Þetta er hugsað sem liður í að styrkja stöðu innanlandsflugs sem hluta af almenningssamgöngukerfinu. Það held ég að sé atriði sem vert er að skoða og einnig það hvort minni flugvellir séu ekki raunhæfur kostur fyrir ferðamenn, því að raunin er sú að notkun á minni vélum hefur aukist í innanlandsflugi, t.d. í Bandaríkjunum. Nýjar og minni flugvélar þykja hagkvæmari ferðamáti en ferðalög á landi. Augljóslega taka þau skemmri tíma. Við eigum marga vannýtta flugvelli um landið sem vel mætti skoða sem kost í stöðunni. Flug er góð leið til að dreifa ferðamönnum um landið því að það styrkir ekki einungis ferðaþjónustuna, heldur léttir líka álagi af vegum landsins sem er komið ansi nærri þolmörkum ef ekki yfir þau.

Innanlandsflugið er afar mikilvægt íbúum, Austur-, Norður- og Vesturlands þar sem stærsti hluti stjórnsýslunnar er á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem stór hluti opinberrar þjónustu er þar. Það er því eini raunhæfi ferðamátinn fyrir fjölda landsmanna, þ.e. eigi þeir að geta sinnt erindum sínum á skikkanlegum tíma og þurfi ekki að verja allt upp í einum vinnudegi eða meira í ferðalög fyrir stutta fundi.

Ég tek því undir þær hugmyndir að ríkið styrki innanlandsflug íbúum til hagsbóta. Hér liggja gríðarlega miklir samfélagslegir hagsmunir undir.

Hæstv. forseti. Mig langar til að víkja tali mínu að fyrirhuguðum framkvæmdum í Norðausturkjördæmi. Þar vil ég byrja á að nefna fyrirhugaða endurbyggingu á brúnni yfir Jökulsá. Það er mjög aðkallandi verkefni sem hefur verið frestað en er nú komið á áætlun í 2. hluta. Þetta verkefni er mjög mikilvægt þar sem um tengingu milli Norður- og Austurlands er að ræða. Öll getum við ímyndað okkur ástand sem upp getur komið þegar og ef til náttúruhamfara kemur á Suðurlandi.

Í tillögu meiri hlutans eru tillögur að auknu fjárframlagi í Bárðardalsveg, Borgarfjarðarveg um Njarðvíkurskriður, Hörgárdalsveg, Dettifossveg og enn verði bætt í Berufjarðarbotn. Mikilvægt er að þegar lokið verður við veginn um Skriðdal verði áfram haldið með Axarveg eins og áætlað er. Þetta eru allt aðkallandi verkefni en eru engan veginn nóg. Langar mig líka til að nefna Brekknaheiði sem er eitt af þeim verkefnum sem setið hefur á hakanum og kemur ekki inn fyrr en á 3. tímabili, eins og endurgerð vegarins um Skjálfandafljót þar sem á að afleggja einbreiða brú.

Þá er efni í flughlað loks komið í farveg, mikilvægt að nú skuli vera komið að því að efni úr Vaðlaheiðargöngum skuli verða notað til að byggja flughlað á Akureyrarflugvelli. Þetta verkefni hefur átt langan aðdraganda. Vona ég innilega að við sjáum það komast af stað og leitt til lykta.

Einnig vil ég geta tillögu um aukin fjárframlög til endurnýjunar aðflugsbúnaðar á Húsavíkurflugvelli. Þar hefur umferð aukist mikið vegna aukinna umsvifa og ánægjulegt að sjá hve heimamenn nota flugið mikið, en það helgast að hluta til af því að verkalýðsfélagið niðurgreiðir flugfargjöld.

Nú sér fyrir endann á framkvæmd við gerð Norðfjarðarganga, eða árið 2017. Þá er gert ráð fyrir að unnið verði að jarðfræðirannsóknum á væntanlegu gangastæði Seyðisfjarðarganga. Fram kemur í nefndaráliti að meiri hlutinn telur að svigrúm sé nú til staðar að hefja gerð Seyðisfjarðarganga samhliða gerð Dýrafjarðarganga. Verður athyglisvert að skoða það.

Gangagerð er mikilvægur þáttur í styrkingu og tengingu byggðarlaga og vil ég benda mönnum á forvitnilega rannsókn sem unnin var af Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands. Þar var rannsökuð staða kynjanna fyrir og eftir opnun Héðinsfjarðarganga og áhrif þeirra á vinnumarkaðinn á svæðinu, atvinnutækifæri kvenna og verkaskiptingu á heimilin. Vísbending er um að göngin hafi jákvæð áhrif á atvinnusókn kvenna. Vísbendingar sem fram komu í þeirri rannsókn eru afar jákvæðar og gefa til kynna að gerð jarðganga á landsbyggðinni þar sem þéttbýliskjarnar eru tengdir betur saman til að skapa stærri atvinnusvæði hafa jákvæð áhrif á jafnrétti kynjanna. Þetta finnst mér afar merkilegur punktur og mikilvægt innlegg í umræðuna um jafnrétti til búsetu.

Þá vil ég fagna tillögum um aukin fjárframlög til hjólreiðastíga. Það er umhugsunarefni hve margir ferðast orðið um landið á hjólum því að það skapar í raun oft hættu og spurning hvort ekki sé tímabært að skoða hvort æskilegt sé að leyfa hjólreiðar á öllum vegum. Það þarf að skoða út frá öryggissjónarmiðum.

Hæstv. forseti. Ég hef tæpt á nokkrum atriðum en þó engan veginn farið yfir tæmandi lista. Ég legg áherslu á að við afgreiðum áætlunina með breytingartillögu nefndarinnar og vil þakka nefndarmönnum góða vinnu.