138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[16:14]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal andsvarið sem mér fannst vera meira hugvekja, sem er ágætt, en kemur sannarlega inn á það sem bæði þingmannanefndin og ég í ræðu minni áðan komum að, að við Íslendingar skyldum í allt of miklum mæli hafa tekið við tilskipunum frá EES meira og minna óræddum, óskoðuðum. Það er hreinlega ekki nógu gott, það eru ekki nógu vönduð vinnubrögð. Við sem löggjafarvald eigum að hafa miklu meiri metnað en það.

Með því vil ég ekki halda fram að allt sem komi frá Evrópusambandinu eða frá EES og stofnunum þess sé húmbúkk og óreiða. Við verðum engu að síður að hafa þann metnað, eins og ég sagði áðan, að skoða hlutina almennilega, meta þá sjálfstætt á eigin forsendum og grípa til þeirra undanþágna og/eða breytinga sem við teljum þurfa til að við getum fellt okkur við þær.