139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

kaup Magma á HS Orku.

[10:48]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í Morgunblaðinu í morgun er fjallað um Magma-málið svokallaða og aðkomu stjórnvalda að kaupum Magma á hlut í HS Orku. Þar er greint frá því að eigendur Magma hafi átt fundi með stjórnvöldum, sérstaklega fjármálaráðuneytinu, á fyrstu stigum þess máls. Samkvæmt því sem fram kemur í blaðinu í dag hafði fjármálaráðherra lagt blessun sína yfir það að fyrirtækið eignaðist helming HS Orku með fjárfestingu. Þetta er óumdeilanlegt samkvæmt þeim gögnum sem Morgunblaðið fjallar um í dag.

Við munum hvað gerðist í kjölfar þess að fjárfestingin átti sér stað. Þá ruku menn upp til handa og fóta í ríkisstjórninni, settu af stað nefnd um erlenda fjárfestingu. Þegar hún komst ekki að réttri niðurstöðu var sett önnur nefnd yfir hana og svo önnur nefnd yfir þá nefnd til að meta hæfi mannanna í hinni nefndinni og það var hver nefndin ofan á annarri.

Í miðju því írafári kom hæstv. umhverfisráðherra inn í umræðuna og sagði: Pólitískur vilji ríkisstjórnarinnar er að minnsta kosti alveg skýr. Hvað sem líður niðurstöðum nefndanna sem beita einhverri lagahyggju þá er pólitískur vilji ríkisstjórnarinnar alveg skýr.

Mig langar að bera það upp við hæstv. umhverfisráðherra hvernig það fer saman að fjármálaráðherra hafi á fyrstu stigum málsins lýst áhuga á því að Magma keypti í HS Orku en síðan strax í kjölfarið er farið að vinna gegn fjárfestingunni og samflokksmaður fjármálaráðherra, hæstv. umhverfisráðherra, stígur inn í umræðuna og segir: Okkar pólitíski vilji stendur til þess að þessi fjárfesting eigi sér ekki stað. Væri hæstv. umhverfisráðherra til í að útskýra þá undarlegu stöðu sem upp er komin í málinu og hvort henni var yfir höfuð ekki kunnugt um þessa jákvæðu afstöðu fjármálaráðherrans sem breyttist eftir að málið var orðið opinbert?