139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[17:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er tvennt sem mig langar að staldra við í þeirri ræðu og bera undir hann til frekari rökræðna.

Það kemur fram í umsögn frá Umhverfisstofnun að ekki hafi gefist tími til að fara yfir málið og athuga samræmi þess við aðra löggjöf í landinu, og hv. þingmaður nefndi skipulagslögin og byggingarlögin. Ég vil spyrja hann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að með samþykkt þessara laga, þó að ég taki undir það með hv. þingmanni að það er þó ánægjulegt að náðst hafi ágæt sátt eftir allar þær deilur sem hafa orðið um þessi mál í gegnum tíðina, skarist valdsvið Orkustofnunar og sveitarfélaga, þ.e. að verksviðið sé ekki nógu skýrt og skilgreint.

Eins langar mig að bera undir hv. þingmann það sem hann kom inn á í lokin á sinni ræðu, taka undir það með hv. þingmanni hversu mikilvægt er að við relgugerðarsetninguna, því að oft þegar verið er að setja lög hér á þinginu eru skildir eftir ákveðnir hlutir sem eru útfærðir í reglugerðum sem eru ekki síðri en lögin sjálf, hvort hv. þingmaður geti ekki tekið undir það að það verði að gerast í mikilli sátt og samvinnu við sveitarfélögin í landinu hvernig þeirri vinnu verður háttað þannig að það verði alveg skýrt hvernig menn sjá fyrir sér að lögin virki í framtíðinni, þ.e. að þess verði gætt af hálfu ráðuneytisins að haft verði náið og gott samstarf við sveitarfélögin til þess að lögin nái þeim tilgangi sem til er ætlast.