139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[19:03]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði nokkuð að umtalsefni þær orðskýringar sem getur að líta í þessu frumvarpi. Stundum finnst manni þetta auðvitað koma dálítið spánskt fyrir sjónir, en ég hef nú af nokkuð langri reynslu hér á þingi komist að því að sennilega er aldrei of varlega farið þegar kemur að því að skilgreina hugtök. Ef við tölum ekki rétt út frá hugtökum og skiljum þau ekki öll sama skilningi getum við lent í vanda.

Ég er gamall sem á grönum má sjá og sat á þingi 1994 þegar verið var að setja lög um fjöleignarhús. Þá olli það nokkurri kátínu hér í þingsalnum þegar í frumvarpinu gat að líta skilgreiningu á hugtakinu „hús“. Ég held ég muni það nokkurn veginn orðrétt að samkvæmt skilgreiningu fjöleignarlaganna þýðir hugtakið hús „bygging sem er varanlega skeytt við jörð“. Og þá vitum við það.

Niðurstaðan varð sú, þegar við höfðum farið yfir þetta í félagsmálanefnd Alþingis á þessum tíma, að við vorum almennt þeirra skoðunar að það væri síst of í lagt að skilgreina þetta hugtak, enda hafði óljós skilgreining á hugtakinu leitt til alls konar rekistefna og deilna sem nauðsynlegt var að setja niður með lögum. Þess vegna hef ég mikinn skilning á því að þessi hugtök hér, sem kannski hljóma svolítið sérkennilega, séu vel skilgreind og við þurfum þá ekkert að velkjast í neinum vafa.

Þau böggluðust hins vegar dálítið fyrir mér þau hugtök sem eru notuð í 1. gr. þar sem talað er um vatn á yfirborði jarðar „í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi“. Einhvern veginn segir málvitund mín mér að vatn í loftkenndu formi hljóti að vera gufa og vatn í föstu formi sé þá frosið vatn, klaki eða snjór, en kannski er ég á villigötum. Ég velti því fyrir mér hvort ekki hefði verið hægt að nota þessi algildu íslensku orð en ég efast ekki um að höfundar frumvarpsins, og ekki síður hv. iðnaðarnefnd, hafi lagst yfir þetta og komist að þeirri niðurstöðu að betra væri að hafa það fyrirkomulag hér að hafa hugtökin „vatn í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi“. Síðan komst hv. iðnaðarnefnd að þeirri niðurstöðu að ekki væri tilefni til að hafa inni í þessari lagasetningu að þessi lög tækju til vatns í loftkenndu formi og gert er ráð fyrir því í breytingartillögum sem þverpólitísk sátt hefur tekist um að fella þetta hugtak burt úr gildissviði og orðskýringakafla frumvarpsins.

Ég hef velt því dálítið mikið fyrir mér undir þessari umræðu sem ég hef hlustað á að allnokkru leyti: Hvernig stendur eiginlega á því að við erum komin í þessi spor núna? Eins og við vitum var lagt fram frumvarp á sínum tíma sem kallaði á miklar deilur í þjóðfélaginu og ekki síst hér á Alþingi. Þar voru hafðar uppi miklar heitingar á báða bóga. Því var haldið fram að með því frumvarpi væri verið að hverfa frá þeirri hugsun sem gilt hefði í lögunum frá 1923. Hins vegar var því teflt fram að svo væri ekki heldur væri hér eingöngu um að ræða breytingar á löggjöfinni og hugsunin væri að færa hana til nútímahorfs en ekki væri um neina eðlisbreytingu að ræða.

Um þetta tókust menn harkalega á. Niðurstaðan varð sú, eins og menn muna, að sett var ákveðið ákvæði inn í frumvarpið sem kvað á um tiltekna málsmeðferð og síðan hefur þetta staðið í einhverju togi þangað til mönnum hugkvæmdist að sætta sig bara við hin gömlu lög frá árinu 1923. Nú virðast allir una glaðir við sitt, bæði þeir sem töldu að ekkert hefði breyst í þeim lögum sem höfðu verið sett á sínum tíma, og ætlunin var að breyta með vatnalögunum frá 1923, og hins vegar þeir sem töldu að þessi nýja löggjöf væri alvarleg stefnubreyting frá löggjöfinni sem gilt hafði í milli 80 og 90 ár.

Þetta er kannski gott dæmi um það að stundum er gott fyrir okkur þingmenn að fara okkur ekki í neinu óðslega þegar kemur að því að breyta lögum. Það hlýtur að vera niðurstaða okkar hér að lögin frá 1923 hafi bara dugað prýðilega enda hefur maður svo sem ekki rekið sig á annað en að þau hafi reynst vel og mér finnst þetta vera mikil viðurkenning á þeirri lagasetningu sem er núna að verða 90 ára gömul. Það er eftirtektarvert og kannski til umhugsunar, sem skjóta má inn hér, að árið 1923 var enginn stjórnmálaflokkur sem nú er ofar jörðu og á fulltrúa á Alþingi sem hefði mögulega getað komið að þeirri lagasetningu, það væri eingöngu Framsóknarflokkurinn sem gæti þá stært sig af því að hafa átt þátt í því að setja þessi miklu vatnalög frá árinu 1923 sem hafa dugað svona vel.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson, sem ræddi hér áðan og þekkir þessi mál nokkuð úr forsögunni vegna starfa sinna, sagði að á sínum tíma, þegar hið umdeilda frumvarp var lagt fram, hefði ætlunin verið sú að gera tilteknar lagfæringar en ekki grundvallarbreytingar á löggjöfinni. Um þetta var sem sagt deilan. En nú erum við einfaldlega í þeim sporum að hér er að fæðast löggjöf í allvíðtækri sátt, ég hygg mjög víðtækri sátt, þar sem niðurstaðan er bara einfaldlega sú að segja: Látum gömlu lögin frá 1923 gilda, gerum á þeim lagfæringar sem leiða af eðli máls og breytingu á þjóðfélagsháttum o.s.frv. en gerum engar grundvallarbreytingar á löggjöfinni. Og allir virðast nú una glaðir við sitt. Deilan sem stóð öll þessi ár virðist hafa verið deila um keisarans skegg; menn voru kannski að reyna að misskilja hver annan eða misskildu hver annan óafvitandi eða vitandi og uppskeran var þessi mikli ágreiningur.

Ég held þess vegna að það sé mikið fagnaðarefni að við séum komin þetta langt og ég vil sérstaklega segja að ég fagna því mjög sem kemur fram í 3. gr. þessa frumvarps. Þar segir, með leyfi forseta, í 3. gr., um vatnsréttindi:

„Landareign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni, straumvatni eða stöðuvatni sem á henni er á þann hátt sem lög þessi heimila. Landeigendur sem hafa aðgang að sama vatni eiga sama rétt til þess í hlutfalli við þá nýtingu sem er gerleg á eða fyrir landi þeirra.“

Þetta er síðan útskýrt frekar í ítarlegu nefndaráliti sem iðnaðarnefnd afgreiddi frá sér í fullkominni samstöðu með fyrirvara nokkurra þingmanna án þess að sá fyrirvari virtist vera um grundvallaratriði. En í skýringum hv. iðnaðarnefndar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Í 3. gr. frumvarpsins kemur fram sú meginregla að rétturinn til umráða og hagnýtingar á vatni sem er á fasteign tilheyrir þeirri fasteign á þann hátt sem lögin heimila.“

Þetta er mjög afdráttarlaust, þetta finnst mér vera einn kjarni þessa máls og ég fagna því að það sé nú um það bil að verða til lykta leitt með farsælum hætti og í góðum friði.