145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:31]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta stóra og mikilvæga mál sem samgönguáætlun er á hverjum tíma er góðra gjalda vert í sjálfu sér, eins og hún lítur út eftir breytingartillögur meiri hlutans og ekki síður ef það næst í gegn sem minni hlutinn hefur verið að leggja til til viðbótar. En það er háð og skömm að því að þetta skuli ekki hafa náðst í gegn fyrr en núna. Ég segi það enn og aftur, minnug þess að hæstv. innanríkisráðherra sagði að þessi dapurlega áætlun sem hún lagði fram væri þó það sem hún treysti sér til þess að standa við, að þetta lyktar af því að það eru að koma kosningar. Þó að við séum öll sammála um það, og höfum við verið þessi þrjú ár, að það þurfi að setja í þetta peninga þá virðist allt vera hægt þessa síðustu daga. Hæstv. fjármálaráðherra er næstum því orðinn vinstri maður í talsmáta miðað við það hvernig hann kemur fram opinberlega í öllum miðlum, mjög merkilegt að nú á að gera allt fyrir alla.

Varðandi þessa áætlun ætla ég að byrja á því að fara svolítið yfir það sem snertir kjördæmið okkar, fara í gegnum einhverja þætti a.m.k. Hv. þingmaður og framsögumaður meiri hlutans samþykkti með gleði ríkisfjármálaáætlun, sem er stefnuplagg hverrar ríkisstjórnar sem mér þótti mjög merkilegt í ljósi þess að hann hefur barist fyrir auknum fjármunum í samgönguáætlun, en samgönguáætlun og ríkisfjármálaáætlun voru með mismun upp á ríflega 3 milljarða. Þá fannst mér mjög kúnstugt að hann sæti ekki hjá og gerði athugasemd við það með þeim hætti. Það er ekki hægt að samþykkja eitthvað og vera sérdeilis glaður með það á sama tíma og maður er með annað plan í gangi sem harmonerar ekki við það.

Það að verið sé að bæta hér við 11,5 milljörðum u.þ.b. í þessa áætlun og til næstu tveggja ára þýðir líka að ríkisfjármálaáætlunin er þá engan veginn gilt plagg. Það er í raun verið að henda því út í hafsauga ef ríkisstjórnin er hér að byrja á því að brjóta allt það sem þar stendur. Ef við gæfum okkur að hún sæti áfram þá held ég við stæðum ekki frammi fyrir því að vera með töluvert aukna fjármuni inn í þessa áætlun.

Ég ætla aðeins að byrja á því að ræða flugið. Flugið hefur verið töluvert til umræðu og flugsamgöngur. Það var í blöðunum í gær og það er aftur í blöðunum í dag. Ég hef sett út á það að hér var fólk, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, sem vann fyrir hönd ráðuneytisins skýrslu um aðferðir og aðgerðir sem hægt væri að grípa til til þess að mæta dýru innanlandsflugi. Það er bagalegt ef sú vinna hefur verið látin liggja í rúmt ár og ekkert með hana gert fyrr en allt í einu núna. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins og frá innanríkisráðuneytinu er nú búið að setja á fót starfshóp sem á að leggja fram tillögur um úrbætur að bættum flugsamgöngum innan lands. Í áliti meiri hlutans kemur hér fram að lagðar séu til einar 300 milljónir í að bæta þetta. En það er gert fyrst núna, hitt plaggið látið liggja í u.þ.b. ár og aftur á að fara að setja starfshóp af stað. Þetta ber ekki vott um að vel sé farið með tíma fólks og peninga. Við þurfum líka að gæta þess að fólkið sem nýtir þjónustuna getur ekki beðið endalaust. Byggðirnar hafa mikið kallað eftir því að þetta verði endurskoðað. Á hverjum einasta fundi landshlutasamtakanna, geri ég ráð fyrir, er talað um samgöngumál, þ.e. vegi, flug og ljósleiðaratengingar. Þetta eru aðaláhersluatriði allra fulltrúa sveitarfélaga sem koma að máli við þingmenn. Ég sit í fjárlaganefnd og í þrjú ár hefur þetta einmitt verið ítrekað. Mér finnst hálfdapurlegt og eiginlega ömurlegt að nú fyrst eigi aftur að setja af stað hóp og skoða þetta til framtíðar. Við eigum auðvitað að vera búin að því.

Varðandi þær hugmyndir sem þarna birtast, þ.e. hvort einkavæða eigi reksturinn, innanlandsflugið, og setja litlu flugvellina undir Vegagerðina en millilandaflugvellirnir, þ.e. Reykjavík, Akureyri, Egilsstaðir, verði áfram undir Isavia — ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér líst ekki á það. Ég sé það ekki fyrir mér. Hér er verið að leggja til að Vegagerðin verði áfram vanfjármögnuð. Ef innanlandsflugvellirnir eiga í ofanálag að fara að keppa um fé held ég að illa sé komið fyrir þeim. Ég hef miklar efasemdir um að þetta sé skynsamlegt.

Í gær var lögð fram samgönguáætlun til lengri tíma og mig langar að fara aðeins ofan í það sem þar birtist. Ég get um margt verið sammála því, um leið og ég er mjög ósátt við að ráðherrann hafi ekki barist nægilega hart fyrir þessum málaflokki fram til þessa, þó að ég fagni því sem hér liggur fyrir, en það er auðvitað ekki nóg. Um byggðaþróun kemur fram að búsetugæðin felist í sex virðisþáttum, sem eru heilsa og öryggi, menntun, atvinna, aðgengi að þjónustu, menningu og afþreyingu, þar sem góðar samgöngur eru í raun forsenda þessa alls. Það er verið að tala um að samgönguáætlun eigi að styðja við þetta og undir þetta markmið eigi líka að falla framkvæmdir og aðgerðir sem geta ekki talist arðsamar á mælikvarða hagkvæmni, en telja verður nauðsynlegar til að skapa sem jafnasta stöðu landsmanna óháð búsetu. Ég get fyllilega tekið undir þetta. Vaðlaheiðargöng voru nefnd hér áðan sem forsenda búsetuþróunar á því stóra svæði. Í sambandi við aðra þjónustu þá skiptir það auðvitað afar miklu máli. Eins og hér var rakið ákaflega vel, af hv. þm. Kristjáni L. Möller, kemur það ekki við ríkissjóð að örðu leyti en sem lán en ekki beint úr vasanum.

Við erum nefnilega að tala um risavaxin þjónustusvæði. Ef við veltum fyrir okkur Akureyri þá nær það frá Skagafirði að Skjálfanda. Það skarast við þjónustusvæði á Sauðárkrók og Húsavík og á Miðnorðurlandi eru það Skagafjörður, Eyjafjörður og Þingeyjarsýsla. Þarna gegnir innanlandsflugið mjög veigamiklu hlutverki. Það er til dæmis Akureyri, Húsavík og til Reykjavíkur og svo er það hið ríkisstyrkta flug sem tengir Grímsey, Þórshöfn og Vopnafjörð við Akureyri. Það eru í kringum 30.000 manns sem búa á þessu svæði. Þess vegna skiptir þetta gríðarlegu máli. Á Austurlandi eru það í kringum 10.000 manns frá Vopnafirði í norðri að Djúpavogi í suðri, við erum að tala um 200 kílómetra svæði. Bara á Fljótsdalshéraði, Seyðisfirði, Fjarðabyggð og Breiðdalsvík eru þetta í kringum 9.000 manns, þ.e. þetta er stærsti kjarninn. Þess vegna sjáum við alveg í hendi okkar, og eins og hefur verið talað um líka varðandi Neskaupstað og fleiri staði, hve miklu máli skiptir að hafa þetta á viðráðanlegu verði. 90% íbúa á Miðausturlandi búa innan við 60 kílómetra frá flugvellinum á Egilsstöðum. Við værum hér að jafna stöðu fólks með gríðarlega mikilvægum þætti, ekki bara vegna ferðaþjónustunnar heldur fyrst og síðast vegna íbúanna sem þar búa.

Í þessu sambandi er líka vert að geta þess, af því að því hefur gjarnan verið stillt upp að Isavia sé vondi aðilinn í þessu máli, að innanlandsflugvallarkerfið allt saman er rekið samkvæmt þjónustusamningi Isavia við innanríkisráðuneytið og það er innanríkisráðuneytið sem ákveður þjónustustig og framkvæmdir á flugvöllunum. Það er innanríkisráðuneytið sem gerir þennan þjónustusamning og það eru tveir þriðju sem koma úr ríkiskassanum og svo eru það notendagjöld og það sem við erum að greiða sem er í kringum einn þriðja. En það er mikilvægt að halda því til haga að Isavia er ekki eini sökudólgurinn þó að við getum haft skoðanir á því hvernig það fyrirtæki er rekið. Það er líka hægt að skoða þann þjónustusamning sem þar býr undir og breyta honum. Það er ekkert óbreytanlegt í þessari veröld.

Innanlandsflugið getur tæplega talist hluti af almenningssamgöngukerfi landsmanna á meðan það er ekki á færi nema þeirra sem eiga peninga eða fyrirtækja og opinberra stofnana að nýta það. Það hefur ekki verið boðlegt til mjög langs tíma. Af því að hér er nú stundum verið að tala um að fólk neiti sér um heilbrigðisþjónustu sökum fátæktar þá erum við líka að tala hér um fólk sem býr mjög langt í burtu, hefur ekki aðgang að allri heilbrigðisþjónustu sem í boði er eins og hér á höfuðborgarsvæðinu, þess vegna er þetta líka stór partur til þess að bregðast við því.

Mér finnst þetta hafa setið svolítið eftir þegar kemur að samgöngumálum. Eðlilega, þegar það hefur verið vanfjármagnað til langs tíma, þá skiptir þetta allt saman máli. En nú eru kröfurnar orðnar aðrar um leið og við viljum fara með millilandaflugið og farþegana sem eru að koma hér til lands í aðrar áttir, þá er þetta eitt af því sem skiptir gríðarlega miklu máli að hafa undir líka.

Þegar við förum svo í gegnum það nefndarálit sem liggur fyrir, svo að ég taki nú eitthvað aðeins af því, þá slær það mann þegar eitt af því fyrsta sem maður les er að meiri hluti nefndarinnar viðurkennir að þetta er vanfjármögnuð áætlun. Það er ömurleg staða hversu lágt hlutfall af vergri landsframleiðslu hefur verið sett í samgöngukerfið og innviði landsins þessi ár sem liðin eru, sérstaklega af hálfu ríkisstjórnar sem tók við góðu búi og hefur getað ráðstafað fjármagni með allt öðrum hætti en hún hefur gert. Og það kostar að láta þetta bíða. Það hefur kostað gríðarlega mikið að láta þetta bíða. Þegar hér hefur verið talað um að það sé forgangsmál að greiða niður skuldir þá þarf stundum að gera tvennt, það þarf stundum að gera þrennt. Það er ekki bara hægt að lækka skuldir ríkissjóðs og láta allt annað drabbast á meðan. Það þýðir bara að við sitjum uppi með fleiri, stærri og flóknari verkefni en annars hefði verið. Þegar sagt er að ekki sé hægt að halda samgöngukerfi í viðunandi horfi miðað við þau framlög, þá spyr maður sig: Er þetta metnaðurinn eða er þetta algjört metnaðarleysi? Við höfum reyndar sagt það hér að þetta sé engan veginn nægjanlegt, þetta dugar ekki einu sinni til að halda í horfinu.

Svo eru það mörkuðu tekjurnar. Það er ástæða til að ræða mörkuðu tekjurnar aðeins. Þær á að afleggja með tilkomu hinna nýju fjárreiðulaga. Við höfum verið að gagnrýna þetta neikvæða eigið fé, sem svo hefur verið kallað, þ.e. fjármuni sem hafa verið færðir í mínus á Vegagerðina í mörg undanfarin ár og var aldrei ætlunin að það yrði niðurstaðan. Það er algjörlega ótækt að nú þegar nýju lögin eru gengin í gildi skuli ekki vera búið að ganga frá því með hvaða hætti á að ráða úr þessu. Ef mörkuðu tekjurnar verða afnumdar þá liggur það bara fyrir og það liggur í raun fyrir að ríkissjóður þarf bara að klippa á þetta. Það er í raun ekkert annað í boði. Það var ekki stofnað til þessara útgjalda með því hugarfari að þetta yrði fært með þessum hætti. Auðvitað er þá enginn tekjustofn eftir, eins og fram kom í andsvari í morgun, til að greiða niður þessa skuld. Það er í sjálfu sér ágætt að meiri hlutinn telur að vinda eigi ofan af henni og afskrifa hana, en það gerist ekkert. Það er það sem er áhyggjuefni. Það hefur ekkert gerst í þessu. Það er búið að tala um þetta núna í a.m.k. þessi þrjú ár, þannig að það er auðvitað svolítið merkilegt að ekkert gerist.

Tíminn hleypur frá manni eins og gjarnan þegar svona stórt og mikið mál er undir. Ég kem til með að fara hér í aðra ræðu til þess að fara nánar ofan í mál, sérstaklega þegar kemur að mínu kjördæmi. En ég ætla þó aðeins að nefna það að hér eru auðvitað lagðar til ákveðnar framkvæmdir sem maður gleðst yfir, m.a. að klára eigi Dettifossleiðina og fara í Berufjarðarbotninn og það eru leiðir sem áfram er haldið fram; það er framkvæmdir mjög víða í kjördæminu sem gert hefur verið ráð fyrir að þurfi að klára þó að ekki sé nema öryggisins vegna. Af því að ég nefndi hér Berufjarðarbotn þá sjáum við myndir reglulega þar sem er hola við holu og algjörlega óásættanlegt og fólk eyðileggur bókstaflega bílana sína með því að keyra þar. Það er frekar sérstakt að það skuli vera þannig.

Ég verð líka að koma því að, af því að við höfum talað töluvert fyrir veginum yfir Öxi, að ég hefði viljað að það væri tekið fram í nefndaráliti meiri hlutans hvað þeir hygðust með Öxi. Það er sífellt verið að ýta því aftur. Ég sé reyndar að það kemur fram í áætlun til lengri tíma að gert er ráð fyrir henni. Það hefur verið gríðarleg umferð yfir Öxi í sumar. Í lok september, nú í vikunni, fara fleiri bílar þar yfir en yfir Hófaskarð, Sandvíkurheiði og Vopnafjarðarheiði til samans. Þetta er einfaldlega skynsamleg framkvæmd fyrir utan það að ekki verður meiri stytting á hringleiðinni en yfir þann veg og þetta tryggir líka öryggi. Eins og reifað var í andsvari áðan þá eru ómalbikaðir vegir á allt of mörgum stöðum á hringvegi 1, fyrir utan allar þessar einbreiðu brýr sem eru út af fyrir sig farartálmi.

Hér er líka nefndur, og ég hef áhyggjur af því, Norðausturvegurinn sunnan Brekknaheiðar. Það er meðal annars vegna þess að alltaf er verið að hugsa um peninga. Talað er um að reyna að gera það sem ódýrast. Gott og vel. Þó á að gæta að helstu öryggisatriðum eins og blindhæðum og öryggissvæðum við hlið vegar eins og fram kemur í upphaflegu áætluninni. Mér finnst að við eigum að vera mjög varkár í því að gera hlutina ódýrt. Einbreiðu brýrnar eru minnisvarði um þá tíma þegar við ætluðum að gera mikið en ekki með framtíðarsýn í huga. Ég held að þetta sé eitt af því sem við þurfum að velta verulega mikið fyrir okkur þegar við förum út í framkvæmdir. Það vill enginn bíða, en það getur verið skynsamlegt að bíða í ár til eða frá til þess að fullgera vegi. Þá er ég ekkert sérstaklega að tala um þessa tilteknu framkvæmd, bara allar framkvæmdir yfirleitt sem hér eru undir.

Herra forseti. Ég ætla að fara betur ofan í einstakar framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru hér á eftir, þ.e. innan kjördæmisins okkar, Norðausturkjördæmis sérstaklega, og ræða það. Ekki er tími til þess á þeim örfáu mínútum sem hér eru undir, en sem betur fer er margt gott að finna í þessari viðbót. Eins og ég sagði í upphafi máls míns þá var þetta plagg minna en handónýtt, það var nánast óboðlegt að leggja það fram.