145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:13]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um fjögurra ára samgönguáætlun sem er reyndar bara til þriggja ára, frá 2015–2018. Við höfum beðið mjög lengi eftir að þessi áætlun komi fram í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Mjög lengi. Og jafnvel enn lengur eftir að nefndin sæi sér fært að afgreiða hana. Hún var svo gott sem tilbúin til afgreiðslu úr nefnd fyrr í sumar en var ekki afgreidd fyrr en seint og um síðir, því miður. Það eru ákveðnir vankantar á því hvernig vinnulagi við gerð þessarar samgönguáætlunar var háttað.

Ég verð samt að viðurkenna að ég er mjög hrifin af því að samgönguáætlanir af þessu tagi séu gerðar, einfaldlega út af því að þessu hefur verið ábótavant í íslenskri stjórnsýslu, þ.e. að gera plön fram í tímann, gera áætlanir. Mér finnst viðleitnin í þessari fjögurra ára samgönguáætlun mjög góð. Það eru nokkur atriði sem mig langar til að fara yfir. Mörg þeirra snúast ekki síst um umferðaröryggi en einnig um ákveðna hugmyndafræði eða hugsun sem við þurfum að fara að temja okkur þegar við horfum á skattfé sem er nýtt til samgangna á Íslandi. Til þess að taka aðeins upp þráðinn, sem við hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir höfðum uppi áðan, varðandi Látrabjarg, þá er staðan sú að sumir vegir eru einfaldlega það slæmir að ég held að það væri hreinlega betra að loka þeim ef ekki á að gera við þá í nánustu framtíð. Þegar við tölum um Látrabjargsveginn erum við að tala um að umferð þangað hefur aukist gífurlega á síðustu tveimur til þremur árum. Við sjáum að það eru stórir bílar, vanbúnir bílar, bílar sem hreinlega passa ekki á veginn, sem fara um þennan veg sem er holóttur og þarna er þverhnípi beint niður. Ég keyrði þennan veg fyrr í sumar og ég var alveg tilbúin til að stoppa bílinn og leggjast niður á jörðina og fara að gráta, einfaldlega vegna þess að ég var svo hrædd að keyra þarna. Jafnvel fyrir reynda ökumenn, sem kalla ekki allt ömmu sína í þessum málum, þá er þetta mjög slæmur vegur. Það sem gerir hann enn verri er mikill fjöldi ferðamanna sem er farinn að sækja þennan stað. Þetta er eitt af undrum veraldar, svona stórt fuglabjarg eins og Látrabjarg er, sér í lagi með þá sérstöðu að þetta er stærsta lundafuglabjarg sem til er. Lundinn er ekki alls staðar í heiminum. Við erum það heppin að hann vill vera hér hjá okkur, enda er Ísland frábært. En það er mjög áhugavert að skoða þetta náttúruundur og það er mjög fallegt að koma þarna á hjara veraldar.

Ef tillögur minni hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar, varðandi það að laga þennan veg, ganga ekki eftir, þannig að við sjáum fram á að þessi vegur verði lagaður, á einfaldlega að loka honum. Það er ekki hægt að halda þessu áfram eins og þetta er núna. Þarna eru hundruð manna að fara um á hverjum degi. Það eru stórar rútur að fara þarna. Við sjáum fram á að stórslys er í vændum. Það er bara þannig að stundum þurfum við að taka ábyrgar ákvarðanir sem eru mjög erfiðar. Valið stendur á milli þess að laga þennan veg eða loka honum. Ég er alveg komin á þá línu.

Það er margt sem mætti gera mun betur í þessari samgönguáætlun. Eins og fram kemur í nefndaráliti hv. minni hluta eru fjárframlög til samgöngumála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu ekki í þeim hæðum sem þau ættu að vera, borið saman við það sem var fyrir hrun. Þetta snýst um að gera langtímaáætlanir. Þessi ríkisstjórn virðist ekki ætla að ná því að sitja nógu lengi eða stíft til að gera svo, enda er flestallt sem hún hefur tekið sér fyrir hendur meira og minna misheppnað, svo að ég taki undir orð hv. þm. Róberts Marshalls hér úr salnum. Það þarf að klára vegi. Sú vinna sem hófst á öndverðri 20. öld, við að koma upp vegakerfi á Vestfjörðum, er til dæmis umferðaróhapp út af fyrir sig, að þetta skuli vera kallaðir vegir. Það er algerlega nauðsynlegt að malbika helstu leiðir á Vestfjörðum og Austfjörðum. Þetta á að sjálfsögðu ekki að vera spurning um kjördæmapot, vegirnir okkar eiga einfaldlega að vera öruggir, alveg sama hvar þeir eru. Staðan er sú að vegirnir okkar eru ekki öruggir. Það skiptir máli hvar þú ert. Það er það sem er svo ótrúlega ósanngjarnt við íslenska vegakerfið. Við erum ekki að tala um einhverja slóða sem einn eða tveir fara um. Nei, við erum að tala um fleiri hundruð manns. Það er jafnvel eina lífæðin til höfuðborgarinnar að fara þennan veg, ellegar borga tugþúsundir króna til að komast í ferju og stundum er það jafnvel ekki möguleiki.

Það er bráðnauðsynlegt að gera mikið átak í uppbyggingu vega á Íslandi. Þetta er spurning um hugarfarsbreytingu, spurning um að gera það. Þetta er að sjálfsögðu mikið verk. Ísland er ungt land þegar kemur að vegauppbyggingu. Það voru þannig séð engir vegir á Íslandi nema rétt á milli staða hér í denn. Jú, ókei, það voru slóðar sem hægt var að fara annaðhvort ríðandi eða gangandi, en helsti samgöngumáti Íslendinga fram undir 20. öld voru strandsiglingar og þær höfum við lagt af.

Þar sem ég er komin inn á strandsiglingar langar mig að taka undir það sem fleiri hv. þingmenn hafa minnst á, þ.e. mikilvægi þess að koma strandsiglingum aftur á. Við sjáum fram á að íslenskir vegir anna ekki þeim þungaflutningum sem nú þegar eru til staðar. Fyrst við erum í jafn slæmum málum og við erum í í dag þarf að finna aðrar leiðir. Til þess að létta á vegakerfinu eins og það er í dag þurfum við hreinlega að taka upp strandsiglingar. Á sama tíma erum við í kjörnu efnahagslegu landslagi til þess að gera Isavia að stærra fyrirtæki sem ber ábyrgð á fleiri flugvöllum. Ég tel heillavænlegast að taka upp það fyrirkomulag sem er í Noregi sem Nordavia sér um, sem er samspil dótturfyrirtækja og arðurinn er notaður til að byggja upp flugvelli annars staðar, allt innanlandsflug á minni staðina fer í gegnum ákveðna kjarnaflugvelli sem hafa verið skilgreindir og vinsælir, þar á meðal Gardermoen, sem er mjög stór og mikill flugvöllur sem mikil vinna hefur verið lögð í. En hugsunin er líka sú að innanlandsflugið mundi aldrei dafna, hvorki fyrir ferðamenn né heimamenn, nema út af því að það eru flugvellir annars staðar til að taka á móti þeim. Það er svolítið sem við höfum ekki hugað nógu vel að. Við höfum ekki sinnt flugkerfinu okkar nógu vel. Það er algerlega kominn tími til þess að við horfum á þetta í meira samhengi. Noregur og Ísland eru mjög sambærileg lönd þannig lagað séð þegar kemur að samgöngum. Noregur er að vísu miklu stærra land en Ísland en þessi lönd eiga það sameiginlegt að þar eru samgöngur, ýmist vegna veðurs eða landslags, mjög erfiðar. Þar af leiðandi er búið að byggja upp flugnet sem er niðurgreitt af ríkinu. Það er búið að skilgreina flugsamgöngur sem almenningssamgöngur. Ég tel þetta vera einstaklega mikilvægt frá byggðasjónarhorni.

Nú höfum við til að mynda mikið rætt um námsmenn, sér í lagi námsmenn sem koma utan af landi. Það er satt, sem kom fram í þeirri umræðu: Af hverju ætti fólk að snúa heim til Vopnafjarðar eða Bíldudals þegar það hefur þurft að fara að heiman 16 ára og er síðan 26 ára þegar það lýkur námi? Hvar á það þá heima? Hvar ólst það upp? Ef við viljum halda uppi byggð annars staðar á landinu en á höfuðborgarsvæðinu, Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum þurfum við einfaldlega að taka ákvörðun um að vera með flug á þessa litlu staði. Til þess að fólkið, sér í lagi unga fólkið, hafi betri samskipti við heimabæinn og eigi heima einhvers staðar líka, sé ekki alltaf aðflutt; komi utan af landi en hafi samt átt heima í Reykjavík mestalla sína ævi.

Þessi spurning um samgönguáætlun og samgöngumál er fyrst og fremst spurning um byggðamál, spurning um það hvers lags land við viljum byggja. Ég tel einstaklega mikilvægt að við tökum upp svipað fyrirkomulag og er í Noregi þar sem er flogið á litlu staðina, þar sem litlar flugvélar eru notaðar. Þetta er hlutfallslega dýrt en mikið til niðurgreitt. Þarna eru mismunandi niðurgreiðslur sem eru til staðar. Ákveðinn fjöldi miða er niðurgreiddur. Að sama skapi er niðurgreitt eftir aldri. Miðar fyrir börn og unglinga eru töluvert meira niðurgreiddir en fullorðinsmiðar sem eru oft á fullum prís. Hugmyndin er sú að þar sem nemendur þurfa að sækja sér nám annars staðar en í heimabyggð, því þannig er það bara og mun því miður verða áfram, eigi að horfast í augu við þann raunveruleika sem við búum við. Það er ekki hægt að gera allt á sama stað. Með því að hafa þessa flugmiða á góðu verði með rausnarlegum afslætti, kannski allt upp undir 70%, verður meira samneyti milli byggða. Þó að það þurfi kannski að millilenda á leiðinni er verðið kannski ekki meira en 350 norskar kr., upp undir 700 kr. norskar, sem er 7.000–14.000 kr. Þetta veit ég því að ég hef sjálf þurft að nota þessa flugmiða þar sem ég hef búið í Noregi og á fjölskyldu í Noregi. Eina leiðin til að komast þangað er með flugi. Maður keyrir ekkert frá Ósló til Bergen eða til Förde eða hvert sem maður ætlar að fara. Það er einfaldlega ekki nógu gott eða öruggt vegakerfi.

Í þeirri samgönguáætlun sem um ræðir er ákveðinn vísir að framtíðarsýn þegar kemur að flugvöllum. Á bls. 11 í nefndaráliti meiri hlutans segir, með leyfi forseta:

„Staða innanlandsflugsins og flugvalla á landsbyggðinni er því ekki góð og horfur mjög neikvæðar.“

Eina leiðin til að takast á við þetta er að líta svo á að innanlandsflug sé ekki endilega þar sem við getum haft samkeppnismarkað. Á meðan samkeppnismarkaður er um innanlandsflug mun það skila sér í hærra verði. Það er bara þannig. Við getum borið þetta saman við, og ég minntist á þetta í andsvari mínu áðan, flugsamgöngur frá Íslandi. Ef við skoðum hvar er ódýrt flug þá er ódýrt flug þar sem er samkeppni. Það er ekki ódýrt flug til Brussel því að það er bara eitt flugfélag sem flýgur beint til Brussel. Þar eru miðarnir á mjög háu verði. Það er hins vegar ódýrt flug frá flestum flugfélögum til London, Kaupmannahafnar, til Berlínar. Það er ódýrt flug til ákveðinna borga á Spáni, Alicante. En það er ekki endilega ódýrt beint flug frá Keflavík á staði sem engin samkeppni er um að fljúga til. Við getum ekki rekið innanlandsflugið okkar ef það á að vera ákveðið net því að Reykjavíkurborg sinnir ákveðinni þjónustu, bæði lækningaþjónustu og ýmiss konar stjórnsýslu sem fólk þarf að sækja til. Þá er flugið eitthvað sem við ættum að niðurgreiða. Við þurfum að byggja upp flugvelli, sjá til þess að það sé raunverulegur möguleiki fyrir fólk að komast til Reykjavíkur þegar það þarf á því að halda. Eins og staðan er núna er það bara oft ekkert þannig. Það er annaðhvort ófært, það þarf bara smáþoku og þá er ekki flogið frá Ísafirði. Við erum að tala um að það er rosalega dýrt, fólk tímir því ekki. Það er mjög slæmt.

Varðandi fleiri samgöngukosti sem við erum með. Mig langar að minnast á ferjuna Baldur, sem að mínu viti er allt of dýr. Þar kostar farið 5.000 kr. fyrir bílinn og síðan 5.000 kr. á mann. Það eru til sambærilegar ferjur í Noregi á fleiri stöðum þar sem annað hvort er frítt eða bara hóflegt gjald. Þarna sjáum við fram á að ef við ætlum ekki að laga vegina á sunnanverðum Vestfjörðum skulum við gjöra svo vel að bjóða hærri niðurgreiðslu þegar kemur að þessum kosti. Það gengur ekki hvernig er verið að koma fram við fólk og þessa byggð, að það sé allt í lagi að búa við lífshættulega vegi. Stærsta umferðaróhapp í sögu íslenskrar umferðar eru vegirnir á Vestfjörðum að mínum dómi.

Við þurfum að gera miklu betur. Við þurfum að hafa miklu betri yfirsýn og hafa ákveðinn skilning á því að ástæða þess að fólki finnst allt í lagi að greiða skatta, til að mynda í Noregi, þar sem samfélagslegur sáttmáli er um að það sé í lagi að greiða skatta, er meðal annars sú að vegakerfið og samgöngukerfið er gott. Grundvallarástæða þess að mér finnst frábært að greiða skatta er sú að við séum með vegakerfi. Það er endalaust verið að státa sig af því að hafa lækkað skatta hér og þar. Þegar maður horfir á heildarmyndina: Jú, við þykjumst vera háskattaland en hversu mikið fáum við fyrir skattana okkar? Þetta er eitthvað sem mikill samhugur er um meðal þjóðarinnar. Ein af helstu ástæðum þess að okkur finnst í lagi að borga skatta er sú að vegirnir eigi að vera í lagi, heilbrigðisþjónustan eigi að vera í lagi, menntun eigi að vera í lagi. Á meðan svo er ekki og meðan við höfum ríkisstjórn sem telur skattalækkanir vera það besta sem hægt er að ímynda sér munum við ekki geta gert þessa hluti, byggt undir ákveðna hugmyndafræði um að við eigum öll að hafa jafnan aðgang að ríkinu okkar, að heilbrigðiskerfinu okkar. Staðan núna er sú að svo er ekki.

Ég fagna að sjálfsögðu þeirri viðleitni sem kemur frá meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar en þetta snýst um miklu stærri hluti. Þetta snýst um ákveðna hugarfarsbreytingu sem mér finnst ég ekki skynja í umræðunni, alla vega (Gripið fram í.) ekki hjá einstaka þingmönnum. Þar fyrir utan held ég að það megi gera miklu betur. Það þarf að vera miklu meiri eining um að þetta sé samfélagslega mikilvægur þáttur til þess að halda byggð úti á landi og í landinu og til að byggja upp þennan þriðja stóra iðnað sem Ísland hefur fengið að gjöf, sem er ferðamannaiðnaðurinn. Við þurfum að hafa almennilegar samgöngur, vera öruggt land. Ef við getum ekki tryggt öruggar samgöngur eigum við einfaldlega að loka ákveðnum vegum. Það er bara komið á þann stað.