139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er há upphæð, 120 milljónir, sérstaklega þegar hún er sett í samhengi við annað eins og nefnt var, hið gríðarlega stóra vandamál sem virðist vera að finna út úr stöðu Kvikmyndaskóla Íslands. Þetta eru heils dags Icesave-vextir, svo að við setjum þetta í samhengi við þá umræðu. (Gripið fram í.)

Ég hefði gjarnan viljað velta vöngum yfir öðru atriði með hv. þingmanni sem nokkrir þingmenn hafa komið inn á í dag, þeirra á meðal hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, og hefur svo sem verið nefnt alla þessa umræðu, þ.e. tengingin við núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Við erum öll búin að vera að velta fyrir okkur hvers vegna hæstv. forsætisráðherra leggur slíkt ofurkapp á að troða þessu máli í gegn núna svona ótilbúnu. Er ástæðan ekki sú sem blasir við, að hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) vill komast í aðstöðu til að setja einn eða fleiri ráðherra ríkisstjórnarinnar til hliðar (Forseti hringir.) sem allra fyrst?