139. löggjafarþing — 161. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess sem hv. þingmaður sagði í lokin um að enginn hefði það markmið að færa vald frá Alþingi til Stjórnarráðsins þá er það bara skýrt í frumvarpinu. Þetta er svo sem ekki eina frumvarpið sem lagt hefur verið fram þar sem beinlínis er gert ráð fyrir því að völd Alþingis minnki.

Ég sé ekki fram á að það verði hægt að koma frumvarpinu í gegnum þingið því að þrátt fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir vilji hafa gott samstarf við stjórnarandstöðuna þá er það hreinlega ekki í boði. Það er slíkur grundvallarágreiningur í þessu máli að það verður ekki hægt að komast að neinu samkomulagi enda er enginn vilji til þess hjá hæstv. forsætisráðherra að koma til móts við okkur í stjórnarandstöðunni. Það liggur alveg klárt fyrir.

Varðandi aðstoðarmennina, og ég vona að þingmaðurinn svari því í seinna andsvari: Er ekki fullmikið í lagt að bæta við 130 millj. kr. útgjaldaauka úr ríkissjóði fyrir aðstoðarmenn ráðherra þegar alls staðar ríkir niðurskurðarkrafa?