145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[10:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að lýsa undrun minni á því að boðað sé til þingfundar núna á þessum morgni. Eins og okkur öllum er kunnugt um eru tvær starfsáætlanir Alþingis farnar í ruslakörfuna, hafa ekki staðist. Samkvæmt síðari áætluninni er þingfundum lokið. Það hefur ekki verið gerð nein ný áætlun um annað og því miður ekki heldur haft neitt samráð um annað. Ég verð að gera alvarlegar athugasemdir við að boðað sé til þingfundar að lokinni starfsáætlun, án þess að það sé rætt í forsætisnefnd Alþingis eða við formenn þingflokka í þinginu. Þetta er lýðræðisstofnun. Henni er ekkert stjórnað með tilskipunum. Ef ríkisstjórnin þarf einn dag í viðbót til að reyna að ljúka einhverjum málum er sjálfsagt að ræða það. En þá verða menn auðvitað að ræða það en ekki boða einhliða til fundar sem engar áætlanir hafa verið uppi um. Ég kalla þess vegna eftir að hlé verði gert á þessum fundarhöldum, virðulegur forseti, þangað til þessir fundir hafa farið fram og eðlileg (Forseti hringir.) lýðræðisleg umræða farið fram um þessa dapurlegu stöðu sem uppi er í þinginu.