145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

framhald þingstarfa.

[15:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja aðeins ítarlegar út í svar sem fékkst hérna áðan þegar forseti greindi frá því að til stæði að formenn mundu hittast, eða alla vega viðeigandi fulltrúar, til að ræða framhald starfa þingsins, en ég velti fyrir mér hvenær. Nú hefur legið fyrir í alla vega heila viku að það mundi gerast einhvern tímann. En einhvern tímann er ekki alveg nóg til að svara spurningunni, virðulegi forseti, það þarf að gerast í dag. Reyndar hefði það þurft að gerast seinasta mánudag, en gott og vel, látum síðustu viku bara vera fyrir formannskjör Framsóknarflokksins, höfum það bara þannig, gott og vel. Núna þarf það hins vegar að gerast í dag. Þess vegna langar mig að spyrja: Hvenær er fyrirhugað að forustumenn flokkanna hittist til að ræða framhald þingsins? Ef ekki liggja fyrir upplýsingar um það finnst mér mikilvægt að það komi líka fram. Engar fréttir eru fréttir.