138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Forseti. Það er orðið til siðs hér þegar þingmenn stíga í ræðustól að þakka fyrir vinnu þingmannanefndarinnar og ég ætla ekki að bregða út af þeirri venju. Ég ætla að þakka félögum mínum hér í þinginu fyrir að hafa lagt á sig þessa miklu vinnu til að vinna upp úr skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Ég held að það skipti miklu máli að við höfum svona tillögur í höndunum svo við getum reynt að koma í veg fyrir að annað eins og gerst hefur hér gerist aftur.

Ég ætla líka að segja að með örfáum undantekningum tel ég að umræðan í þinginu hafi verið ákaflega holl og góð og sýnt að við sem hér erum inni getum tekist á í málefnalegum umræðum. Það höfum við svo sem oft sýnt áður en mér finnst það hafa einkennt þessar umræður, með örfáum undantekningum, að fólk hér er tilbúið til þess að tala um grundvöllinn fyrir okkar starfi sem löggjafa og ábyrgð okkar gagnvart almenningi í þessu landi.

Ég ætla að tala stuttlega á eftir um tillögur til breytingar sem ég mun leggja fram ásamt nokkrum þingmönnum, en á bls. 5 í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Alþingismönnum ber að sýna hugrekki, heiðarleika og festu í störfum sínum.“

Þetta er ákaflega fögur setning og hún boðar fögur fyrirheit. Við höfum undanfarna daga verið full af fögrum fyrirheitum því að öll viljum við gera eins vel og okkur er unnt innan þess ramma sem hér hefur verið mótaður í gegnum tíðina, sem við erum að reyna að breyta og vitum að er ekki auðvelt. En að við verðum að breyta þessum ramma að einhverju leyti þó að við verðum líka að passa okkur, það er ekki eins og allt sé ónýtt og vont, við verðum að reyna að vera óhrædd við róttækar breytingar en jafnframt að kunna að meta það sem er gott.

Það var mér mjög hugleikið þegar ég las þessa setningu og eins þegar ég hef hlustað á umræðurnar undanfarna daga að þegar við verðum búin að ljúka umræðu um þessa skýrslu og vonandi að samþykkja þá þingsályktun sem nefndin leggur fram á grundvelli hennar tekur við verkefni þar sem alþingismenn þurfa svo sannarlega að sýna hugrekki, heiðarleika og festu í störfum sínum. Eftir afgreiðslu skýrslunnar mun mjög fljótlega reyna á hvers við erum megnug. Erum við fær um að takast á við stjórnarskrárbundna skyldu okkar sem felur í sér að við ákveðin tækifæri þurfum við að taka að okkur ákæruvald? Hvernig ætlar þingið að meðhöndla það? Það eru einstaklingar sem þar eiga í hlut þar sem er mjög mikið í húfi og ég held að við séum öll mjög meðvituð um það.

Að því slepptu langar mig að segja að þar mun reyna á hvort Alþingi mun verða þess megnugt að sinna skyldum sínum óháð því hver niðurstaðan verður því að þá niðurstöðu verðum við hvert og eitt að gera upp við okkur, að vega og meta og taka síðan ákvörðun um hvað við teljum rétt að gera. Það mun hver þingmaður gera með sjálfum sér og að mjög vel ígrunduðu máli enda er þetta væntanlega ein af alvarlegri ákvörðunum sem við munum þurfa að taka sem þingmenn, þó að það sé nóg af alvarlegum ákvörðunum þessa dagana.

Þá langar mig að fara í þingsályktunartillöguna sjálfa sem nefndin leggur fram. Ég get ekki annað sagt um þá ályktun en að ég er mjög ánægð með hana og mun treysta mér til þess að styðja hana heils hugar. Ég held að þarna hafi nefndin náð að taka út helstu atriðin sem skiptir máli að halda áfram með. Þriðji liður tillögunnar varðar eftirlit þar sem talað er um að koma eigi á sérstakri nefnd á vegum Alþingis til þess að hafa eftirlit með úrbótum á löggjöfinni sem þingmannanefndin leggur til í skýrslu sinni.

Það er fjöldinn allur af tillögum í þessari skýrslu sem þarf að skoða og það kann að vera að ég hafi misst af því í umræðunum en mér finnst eins og ekki hafi verið rætt með hvaða hætti við ætlum að velja slíka nefnd. Hvort sem það verður forsætisnefnd sem tekur þetta að sér eða hvort við búum til sérstaka nefnd í kringum þetta, þætti mér eðlilegt og legg það til að forsætisnefnd fjalli um með hvaða hætti þetta eftirlit á að fara fram.

Í samandregnum niðurstöðum kemur fram að þingmannanefndin telur mjög mikilvægt að hafa samráðsvettvang fjármálaráðuneytis, Alþingis, stofnana ríkisins, sveitarfélaga og Seðlabanka um efnahagsmál og að hlutverk slíks vettvangs verði lögfest. Ég er sammála þeirri tillögu, að hluta til að minnsta kosti, þó að ég hafi ekki gert upp við mig hvort ég sé sammála því að öllu leyti.

Varðandi lögfestingu á slíkum samráðsvettvangi hlýtur að skipta miklu máli hvað á að fara fram á honum því að t.d. stofnun eins og Seðlabankinn er sjálfstæð stofnun. En ég held að svona vettvangur sé mjög mikilvægur því að við höfum litið fram hjá t.d. sveitarfélögunum sem mikilvægum þætti í hagstjórninni. Við höfum búið við það árum saman að peningastefnan og stefnan í ríkisfjármálum hafa farið hvor í sína áttina og það er fyrirkomulag sem við getum ekki látið viðgangast. Eitt af brýnustu verkefnunum er að koma í veg fyrir að hagstjórnin sé ekki samstiga.

Þá langar mig líka að benda á að í skýrslunni er vísað til „stofnana ríkisins“. Mér finnst það of vítt af því að ég átta mig ekki á hvaða stofnanir ríkisins eru þar undir. Í mínum huga hefði átt að standa Íbúðalánasjóður. Íbúðalánasjóður veitir húsnæðislán sem hafa mjög mikil áhrif t.d. á eftirspurnarþætti í hagkerfinu. Og eins og sýndi sig var það húsnæðislánamarkaðurinn sem hafði mjög mikil áhrif á þá eignabólu sem myndaðist og hafði mikil auðsáhrif á heimilin í landinu sem olli því að hér varð miklu meiri einkaneysla en efni stóðu til. Ég lít því svo á að ein af þessum stofnunum ríkisins hljóti að vera Íbúðalánasjóður og það leiðir mig inn í þá breytingartillögu sem ég vil leggja hér fram og hef fengið nokkra þingmenn með mér á. Hún hefur ekki komið til dreifingar og verður væntanlega lögð fram með afbrigðum, en ég ætla samt að fjalla lítillega um þær hugmyndir sem ég er með af því að ég tel að fram eigi að fara sjálfstæð og óháð rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs.

Fjármögnun og lánareglum Íbúðalánasjóðs var breytt árið 2004 og í kjölfar þessarar rannsóknar þarf að fara fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi Íbúðalánasjóðs. Ég er ekki sátt við það, það er rætt um það í skýrslunni að þær breytingar hafi verið „hluti af“ alvarlegustu hagstjórnarmistökunum sem gerð voru á tímabilinu, það er tekið fram. Síðan er málið einhvern veginn látið falla niður með því að starfsmenn Íbúðalánasjóðs eða aðilar mjög tengdir sjóðnum sendu inn upplýsingar. Nefndin tekur ekkert afstöðu til þeirra en mér finnst það ekki ljúka málinu. Í þeirri miklu endurskoðun sem við erum nú hljótum við að fá utanaðkomandi óháða aðila til þess að fara í slíka rannsókn.

Þessi rannsókn er ekki bara til þess að gera rannsókn því að við vitum nú, sem lá ekki nákvæmlega fyrir þegar rannsóknarskýrslan var gerð þó að allir vissu að það stefndi í það, að á næstunni mun ríkissjóður þurfa að leggja til umtalsverða fjármuni. Nú er talan áætluð kannski um 20 milljarðar. Ég ætla ekki að fullyrða að svo sé en það eru umtalsverðar fjárhæðir fyrir almenning og ríkissjóð. Við verðum að vita hvaða ástæður liggja að baki því að við sitjum í súpunni enda er þetta hluti af því sem ég ræddi um — húsnæðislánamarkaðurinn í landi þar sem megnið af íbúðarhúsnæði er í séreign. Fjárfestingar heimilanna eru hér hlutfallslega meiri í húsnæði en víða í kringum okkur. Við verðum að taka það alvarlega og við verðum að hafa skikk á þessum hlutum.

Síðan er svo margt í þessari skýrslu sem aðrir hafa rætt og mig langar að ræða. Ég ætla ekki að gera það hér og nú enda finnst mér þingmannanefndin hafa komið málinu í þann farveg að við munum á næstu missirum hafa fjöldann af tækifærum þegar við förum að vinna í þeim tillögum sem hér liggja fyrir sem niðurstaða þingmannanefndarinnar, við munum á næstu missirum margoft koma aftur að þessu og fjalla betur um þetta. Það held ég að sé svo mikilvægt af því að ég er sammála öllum þeim sem segja að við verðum að horfa til framtíðar, við getum ekki fest í naflaskoðun fortíðarinnar. Þær tillögur sem eru uppbyggilegar eru tillögur um það hvernig við ætlum að skipa málum íslenskrar stjórnsýslu og íslenska ríkisins með betri hætti til framtíðar.

Ég ætla bara að endurtaka þakkir mínar til nefndarinnar og fagna því að hún hafi með tillögum sínum gefið okkur tækifæri til þess að ræða áframhaldandi uppbyggingarstarf á Íslandi.