139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:30]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Hæstv. forseti. Það er fullt tilefni til að gera athugasemd um fundarstjórn forseta hér áðan og við það hvernig ráðherrar svara fyrirspurn í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Það er svo sem ekkert nýtt að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands dragi það að svara þinginu öllum þeim fjölmörgu fyrirspurnum sem fyrir þá hafa verið lagðar, bæði skriflega og munnlega. Við höfum hér í þinginu hlustað á mikla gagnrýni þar sem svör hafa dregist svo vikum og jafnvel mánuðum skiptir.

En þegar þetta er komið yfir í þennan dagskrárlið, sem eru óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra ríkisstjórnarinnar, og hæstv. forsætisráðherra kemur hér upp nánast neitar að svara þingmönnum augljósum, einföldum spurningum, getur þetta ekki gengið. Þessi dagskrárliður missir algjörlega marks ef þingstörfin eiga að fara fram með þessum hætti. Ég vil hvetja virðulegan forseta til að eiga orðastað við forsætisráðherra út af þessu, við getum ekki sætt okkur við þessi vinnubrögð.