139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir um margt mjög málefnalega og innihaldsríka ræðu. Mér leikur svolítil forvitni á að vita: Er þingmaðurinn að tala eingöngu fyrir hönd sjálfrar sín hér í ræðustól eða er hún að lýsa stefnu Framsóknarflokksins?

Í skýrslu stjórnarráðsnefndar Framsóknarflokksins, sem hv. þingmaður vitnaði til hér áðan, eru margvísleg atriði samhljóma þeim efnisbreytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu. Síðan hafa komið hingað upp ákveðnir þingmenn Framsóknarflokksins og talað mjög á móti þeim breytingum sem verið er að leggja til. Mér sýnist hv. þm. Eygló Harðardóttir hafa flutt ræðu 16. júní í fyrra sem er efnislega mjög samhljóða því sem hér er verið að leggja til en sams konar efnisatriði telur samflokksmaður hennar leiða til mikillar lausungar. (Forseti hringir.) Hver er stefna þingflokks Framsóknarflokksins í þessum efnum? (Forseti hringir.) Er hægt að fá skýringar á henni í þessari umræðu?