139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:15]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Núgildandi stjórnarráðslög eru meira en 40 ára gömul og hafa reynst ágætlega, held ég, en ég tel ekki vanþörf á að endurskoða lög, ekki síst um meginstofnanir í landinu, jafnvel oftar en á rúmlega 40 ára fresti. Mér finnst tímarnir hafa breyst svo mjög hér á landi á þessum rúmlega 40 árum að uppbygging Stjórnarráðsins núna er þunglamaleg. Þar er starfað í hólfum og múrar eru á milli ráðuneyta. Það er erfitt að bregðast við örum breytingum sem verða í þjóðfélaginu og á starfsháttum öllum. Þess vegna tel ég frumvarp það sem við tölum um núna til bóta, ekki á stjórnarráðslögunum gömlu heldur til bóta að því leytinu til að við ætlum að breyta um kerfi, ef svo má segja. Í stað þess að vera með þungt kerfi sem er mjög formfast ætlum við að taka upp kerfi sem er skilvirkara, sem er hægt að hreyfa til, og það held ég að sé af hinu góða.

Auðvitað er forsætisráðherra ekki gefið neitt alræðisvald með þeim tillögum sem lagðar eru til. Þar er einungis lagt til að sá eða sú sem er í fararbroddi — og væntanlega er enginn ágreiningur um að það er forsætisráðherra — hafi heimild til að deila verkefnum á milli samverkamanna sinna. Auðvitað verður það aldrei gert nema með samkomulagi þessara samverkamanna, með samkomulagi í ríkisstjórninni um að breytingar verði gerðar á verkaskiptingunni.

Í öllum fyrirtækjum ber sá sem er í fararbroddi ábyrgð á verkaskiptingu og getur lagt til breytingar í þessum fyrirtækjum. Meiri hluti allsherjarnefndar gengur lengra en gert er í frumvarpinu um þetta efni að því leyti að hann leggur til að ekki verði getið um hámarksfjölda ráðuneyta í lögunum, enda var varla annað skilja en að hámarksfjöldinn verði sá sem lagður var til í frumvarpinu, þ.e. tíu ráðuneyti, miðaðist við þann fjölda sem er í dag. Það virðist sannarlega ekki vera mjög vísindaleg niðurstaða og er ég því fullkomlega fylgjandi að breyta frá því ákvæði.

Þá leggjum við einnig til að það komi skýrt fram í lagatextanum að ráðherrar starfi í umboði Alþingis. Það er einmitt áríðandi að gera það því að ráðherrar eiga ekki að reka prívatpólitík í ráðuneytum heldur eiga þeir að fara að þeirri stefnu sem Alþingi hefur ákveðið. Það er mjög áríðandi og setur skýrari mörk á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins en oft vill verða hér á landi. Það er sem sé hnykkt á því að hér sitji þingræðisstjórn.

Ég vil vekja athygli á því sem hv. þm. Eygló Harðardóttir talaði um í ræðu sinni fyrr í dag, þá hugmynd hennar að hugsanlega yrði sú tilhögun sem ætti að verða á ráðuneytum borin undir Alþingi í þingsályktun með einni umræðu. Ég segi eins og er að mér finnst það mjög athyglisverð tillaga og held að við ættum að spá í hvort það geti orðið til að brúa bilið á milli ólíkra sjónarmiða í þessu húsi. Ég verð að segja að því miður gerist það ekki oft að svo málefnalegar ræður séu fluttar hér eins og sú sem hv. þm. Eygló Harðardóttir flutti áðan.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um ófarirnar sem urðu fyrir þremur árum kemur fram að á ríkisstjórnarfundum hafi verið haldnar heldur fáfengilegar fundargerðir þannig að ekki hefur verið hægt að rekja hvort mál hafi yfirleitt verið rædd á fundum ríkisstjórnarinnar. Þetta frumvarp tekur á þeim vanda. Í allsherjarnefnd urðu nokkrar umræður um hversu ítarlegar fundargerðir ættu að vera. Ég hef ávallt verið þeirrar skoðunar að í fundargerðum eigi að koma fram hvað rætt var og hvað ákveðið var en það skipti miklu minna máli hver sagði hvað.

Í tillögu okkar meiri hlutans er ekki gerð tillaga um að víkja frá því að fundargerðir verði með þessum hætti. Á hinn bóginn er lögð fram breytingartillaga um að ríkisstjórnarfundir skuli hljóðritaðir. Það er við það atriði sem fyrirvari minn er á nefndarálitinu og við breytingartillögur meiri hlutans. Ég tel það engu þjóna að hljóðrita ríkisstjórnarfundi og engu skipta í því efni að hljóðritanirnar verði bundnar trúnaði í 30 ár. Það er alveg ljóst, hvort heldur er á ríkisstjórnarfundum eða á öðrum fundum, að vilji fólk skiptast á skoðunum og velta vöngum án þess að það sé sérstaklega skráð eða hljóðritað eru mál einfaldlega reifuð annars staðar en á þeim fundum sem hljóðritaðir eru.

Þar fyrir utan sjáum við hér í húsinu því miður allt of oft hvaða áhrif það hefur á mætasta fólk að vera í beinni útsendingu. Það virðist kalla á alls konar yfirlýsingar og leikþætti sem skila engu. Á sama hátt tel ég að hljóðritanir á ríkisstjórnarfundum gerðu þær samkomur óskilvirkari og ég tel það litlu breyta í þeim efnum að þær verði ekki birtar fyrr en eftir 30 ár, eins og ég sagði áðan.

Mig langar aðeins að víkja að stjórnunar- og eftirlitshlutverki ráðherra. Í frumvarpinu eru settar fram almennar leiðbeiningar um stjórnunarheimildir. Gagnrýnt hefur verið að þær séu ekki nógu skýrar og að þær séu matskenndar. Það er ekki hægt að skrá einstök atvik eða einstaka atburðarás í lög. Það sem hér er gert og skiptir máli er að lögfesta að ráðherra hafi þessar stjórnunarheimildir.

Ég vil vekja sérstaklega athygli á því sem segir í nefndaráliti meiri hlutans um ákveðna frumkvæðisskyldu sem ráðherra getur haft gagnvart undirstofnunum og sem umboðsmaður Alþingis hefur bent á. Hann bendir á að áríðandi sé að ráðherrar taki athugasemdir sem þeim berast alvarlega þótt ekki berist um þau formleg erindi og að þeim geti borið að taka með skýrum hætti afstöðu til þess hvort eitthvað þurfi að aðhafast á grundvelli yfirstjórnunar og eftirlitsheimilda.

Hér sýnist mér vera lögð áhersla á að ráðherrann er ábyrgur í starfi sínu og að hann eigi að fylgjast með þeim undirstofnunum sem heyra undir ráðuneyti hans. Hann ber ábyrgð á þeim án þess að um þær berist alltaf formleg erindi ef hann hefur eftir einhverjum öðrum leiðum upplýsingar um að ekki sé allt með felldu í starfsemi þessara stofnana.

Nokkuð hefur verið rætt um aðstoðarmenn ráðherra og í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þeim verði fjölgað og pólitískar skrifstofur ráðherra styrktar. Fólk hefur vafalaust ólíkar skoðanir á því. Sjálf tel ég að heppilegt geti verið að styrkja þessar skrifstofur en tel það kannski ekki vera það sem er mest áríðandi við þessa lagasetningu. Það heyrir ekki undir þetta mál en er þó skylt, og hv. þm. Eygló Harðardóttir kom inn á það áðan, að lögð hefur verið fram tillaga þess efnis að ráðherrar geti látið af þingsetu á meðan þeir gegna ráðherradómi. Það heyrir undir allt annað mál, það heyrir undir þingsköp þannig að ég tel ekki að hægt sé að breyta því með þessu frumvarpi vegna þess að þingsköpin kveða á um að alþingismenn geti tekið sér frí vegna veikinda o.fl. Eftir þá skoðun sem ég gerði á þessu máli tel ég að eina leiðin til að koma því við væri með því að breyta þingsköpunum. Ég tel að það geti tæplega verið hluti af þessu máli en það er á hinn bóginn alveg hárrétt sem hv. þm. Eygló Harðardóttir benti á, að ljóst er að ef tíu ráðherrar sem eyða stórum hluta starfsdags í þingsal, væru ekki hér mundu pólitískar skrifstofur í Stjórnarráðinu styrkjast. Þá er spurning hvort þörf yrði á þessum fjölda aðstoðarmanna. Að öðru leyti ætla ég ekki hafa mjög sterkar skoðanir á því hvort aðstoðarmenn séu einn eða tveir en mér finnst hins vegar hugmyndin um aðstoðarmannastormsveit einhverra þriggja sem hægt væri að senda hingað og þangað þegar kreppa ríkir í einhverju ráðuneyti frekar ágæt.

Fleira ætla ég ekki að segja um þetta mál að sinni.