139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:58]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég sagði áðan að ég væri tilbúinn að standa hér í alla nótt (PHB: Já, já, já, miklu lengur.) og ræða mál sem skiptu heimilin í landinu raunverulega máli. Ég spyr, frú forseti: Hvers eiga heimilin að gjalda? Ég nefndi tillögu áðan þess efnis að við tækjum á dagskrá mál sem snýr að því að afnema verðtryggingu eða veita Íbúðalánasjóði heimild til að veita óverðtryggð íbúðalán.

Því hlýt ég að spyrja mig: Hvers eiga heimilin og fólkið í landinu að gjalda þegar forgangsröðun er með þeim hætti að það eina sem skiptir máli er stjórnarráðsfrumvarp hæstv. forsætisráðherra sem alger óeining er um innan ríkisstjórnarinnar og á Alþingi, frumvarp sem felur í sér aukna miðstýringu, en ekkert bólar á raunverulegum aðgerðum eða málum sem skipta venjulegt fólk máli?