145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

starfsáætlun þingsins.

[10:43]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mér finnst það mjög mikilvægt sem kom fram í máli hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, kosningabaráttan er hafin og þingmenn þurfa sumir hverjir að sinna stórum kjördæmum fjarri Reykjavík og það er mikill aðstöðumunur í því. Þingmenn stjórnarandstöðunnar eru hér, taka þátt í þingfundum og nefndarfundum og sinna þingstörfum, en vildu gjarnan vera úti í sínum kjördæmum. Svo geta aðrir þingmenn stjórnarliðsins í sjálfu sér sloppið við að vera hér og eru ekkert endilega hér. Eftir því sem nálgast kosningar veltir maður fyrir sér: Þessir fundir sem verið er að setja upp í kjördæmunum, annaðhvort mæta allir eða enginn. Mér finnst það ekki ganga að sumir geti verið að flengjast þar og taka í höndina á fólki á meðan aðrir sinna störfum hér af því að ríkisstjórnin og hæstv. forseti geta ekki fundið út úr því að klára þetta þing. Þetta er algjörlega óviðunandi staða.