145. löggjafarþing — 161. fundur,  3. okt. 2016.

lenging fæðingarorlofs og hækkun greiðslna.

[11:38]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrirspurnina. Ég hefði mjög gjarnan viljað sjá aukna fjármuni inn í fæðingarorlofskerfið á kjörtímabilinu, eins og ýmsa aðra málaflokka sem heyrt hafa undir mig. Ég taldi hins vegar mjög mikilvægt að fá niðurstöður í vinnu nefndar sem ég nefndi í svari mínu við fyrri fyrirspurn varðandi fæðingarorlofið. Það var von mín að hægt væri að ná sameiginlegri niðurstöðu á milli aðila vinnumarkaðarins um það hvernig við ætluðum að endurreisa og síðan byggja upp fæðingarorlofskerfið.

Í ríkisfjármálaáætluninni er tryggt fjármagn á næsta ári til þess að hækka greiðslur upp í 500 þús. kr. í kerfinu, en hins vegar eru þar ekki aðrar tillögur sem mátti finna í tillögum nefndarinnar, þá annars vegar að hægt væri að fá 100% greiðslu upp í 300 þús. kr. og að þakið færi upp í 600 þúsund, sem sagt 80%, og síðan að fæðingarorlofið yrði lengt í skrefum í 12 mánuði.

Það var að mínu mati einkar mikilvægt, og það var stuðningur við þá tillögu meiri hluta nefndarinnar sem Birkir Jón Jónsson, fyrrverandi þingmaður, stýrði, að flokksþing framsóknarmanna ályktaði um þessar breytingar núna um helgina. Þar kom fram eindreginn stuðningur við það að við gerðum allt sem við gætum til þess að tryggja það að þessar tillögur yrðu að raunveruleika á næsta kjörtímabili.

Ég vona svo sannarlega að atvinnurekendur muni skipta um skoðun og horfa til þess hversu mikilvægt það er að hluti tryggingagjaldsins verði nýttur til þess að fjármagna nýtt og betra fæðingarorlofskerfi því að við höfum svo sannarlega öll áhyggjur af því hvað snýr að fæðingartíðninni, sem hv. þingmaður nefndi áðan.