139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

breyting á bankalögum -- atvinnumál -- Kvikmyndaskóli Íslands o.fl.

[11:01]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Mig langar að koma aðeins upp í framhaldi af fyrirspurn hv. þm. Péturs H. Blöndals um áhrif efnahagsástandsins í Grikklandi á efnahagsástandið hér á landi. Mér finnst þessi spurning einkennandi fyrir þá sem stara eilíft á Evrópu og sjá þar mikla ógn og hrylling. Staðreyndin er sú að efnahagsástand í öllum heiminum er viðsjárvert og það mun hafa áhrif á okkur síðar meir, og auðvitað ástandið í Evrópu vegna þess að við flytjum mikið út til Evrópu. Hins vegar vil ég benda á að efnahagsástandið í heiminum núna er verst á fjármálamörkuðum og ég trúi því ekki að hv. þingmaður hafi gleymt því að við töpuðum öllu sem hægt er að tapa á slíkum mörkuðum fyrir þrem árum. Síðan höfum við búið hér í dásamlegri einangrun, „splendid isolation“ eins og Bretar segja, vegna gjaldeyrishafta þannig að núna getum við ekki tapað stóru eða miklu. Við erum búin að því, því miður. Kannski ættum við bara að hlakka yfir því og segja: Hverjum var það að kenna? Það var okkur sjálfum að kenna. Það var ekki Evrópu að kenna.

Hitt er svo aftur annað mál að ef efnahagur venjulegs fólks í Evrópu versnar verulega hefur það örugglega áhrif á okkur vegna þess að við eigum mest viðskipti, eins og þingmaðurinn sagði, við fólk í þeim löndum. En við skulum passa okkur á því að rugla ekki saman og gleyma ekki því að við töpuðum öllu sem við gátum tapað fyrir þremur árum.