139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:41]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hvað sem segja má um 40 mínútna ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar fyrr í dag má hv. þingmaður þó eiga það að hann var heiðarlegur við sjálfan sig og flokk sinn. Hann ræddi það nokkuð að hann væri í málþófi ásamt flokki sínum og Framsóknarflokknum og líka hvernig á því málþófi stæði. Hv. þingmaður reyndi að útskýra það fyrir þeim sem á hlýddu, bæði hér innan salar og utan. Ég vil hrósa honum fyrir það hér að hafa gert það, því að þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir, virðist ekki hafa sama heiðarleika til að bera og hv. þm. Jón Gunnarsson í hennar flokki. Hann segir: Ég er í málþófi. Það er vegna þess að — og svo koma skýringar á því. Við getum deilt um hvort það sé rétt og að hve miklu leyti það er honum samboðið sem þingmanni og málsvara kjósenda í sínu kjördæmi að gera það, en hann er í málþófi.

Ég hvet hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur til að ræða við Jón Gunnarsson og hlusta á ræður hans í þar til gerðum tólum eða lesa þegar þær hafa verið ritaðar, en það er alveg klárt að Jón Gunnarsson er í málþófi. Er það þá þannig að hluti Sjálfstæðisflokksins sé í málþófi og hluti flokksins ekki í málþófi? Er Ragnheiður Elín Árnadóttir ræða málin, en Jón Gunnarsson í málþófi? Getum við þá kannski fengið lista, bara svona til skýringar og til þess að umræðan gangi betur, hjá hv. þingflokksformanni Ragnheiði Elínu Árnadóttur yfir hverjir af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins eru í málþófi og hverjir eru bara að ræða málin?