139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eiga orðastað við hv. þm. Þuríði Backman, formann hv. heilbrigðisnefndar, vegna þess að ég og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem sitjum í þeirri nefnd, báðum um fund í nefndinni þann 17. ágúst sl. til að ræða þrjú stórmál. Með fullri virðingu eru það miklu merkilegri mál en við ræðum nú á þessu haustþingi sem er fullkomlega stjórnlaust.

Í fyrsta lagi sagði hæstv. velferðarráðherra í viðtali við fjölmiðla hvorki meira en minna en að hann ætlaði að færa þjónustu Landspítalans aftur til ársins 2004. Ég vek athygli á því að hér er verið að tala um Landspítalann. Vonandi voru þetta klaufaleg ummæli en það er ýmislegt sem bendir til þess að hér ætli menn eingöngu að fara í flatan niðurskurð sem mundi samkvæmt forsvarsmönnum spítalans hafa mjög alvarlegar afleiðingar. Finnst hv. þingmönnum ekki að það eigi að ræða þetta?

Í öðru lagi hefur margoft komið fram að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki tekið ákvörðun um hvernig hún ætlar að ná milljarðasparnaði — mér sýnist um 3–4 milljarða sparnaði — í sjúkratryggingum, en eins og Ríkisendurskoðun hefur ítrekað bent á eru það stjórnmálamenn sem eiga að taka ákvörðun um það. Finnst hv. þingmönnum ekki að við eigum að ræða þetta?

Í þriðja lagi var gert samkomulag sem breytti lögunum um sjúkratryggingar um síðustu áramót þannig að um næstu áramót munu þær taka yfir alla samninga við heilbrigðisstofnanir. Gert var samkomulag um að unnið yrði allt árið að því að það (Forseti hringir.) mundi takast sem best. Við höfum ekki fengið neinar fregnir af því þannig að við höfum farið fram á að fá upplýsingar um þá stöðu. (Forseti hringir.) Staðan er núna sú að hv. formaður heilbrigðisnefndar ætlar ekki (Forseti hringir.) að verða við ósk okkar um að ræða þessi mikilvægu mál.