139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Höldum aðeins áfram að tala um hvalveiðarnar. Það er auðvitað svo að ef ríkisstjórninni dytti í hug að svipta þeim málaflokki frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu inn í eitthvert ráðuneyti til þess beinlínis að tryggja að ekki yrði hægt að halda áfram hvalveiðum og yrði, að óbreyttum lögum, að koma með slík áform sín inn á Alþingi þá veit hæstv. ríkisstjórn mjög vel að það yrði aldrei samþykkt. Hún yrði undir, hún yrði að bakka frá þessu alveg eins og hún varð að bakka frá þeim hugmyndum sem hún hafði á sínum tíma um sameiningu atvinnuvegaráðuneytanna svokölluðu.

Það er þetta sem hæstv. ríkisstjórn er að reyna að búa sér til hjáleið frá, að komast hjá því að þurfa að bera svona hluti undir Alþingi í sínu nafni. Þess vegna býr ríkisstjórnin til alls konar hjáleiðir. Við verðum að skoða þetta í samhengi, það er verið að opna hér gríðarlega miklar heimildir og meirihlutaálit og breytingartillögur meiri hluta allsherjarnefndar auka enn á þann möguleika og gera í raun möguleikana (Forseti hringir.) í breytingum óteljandi og þetta verður fullkomið kaos.