139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[15:03]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Margréti Tryggvadóttur. Það er lítill tilgangur með að halda fund hér að kvöldi til ef við vitum ekki hvert heildarplanið varðandi lok þingsins er. Ég vil ekki segja að við nýtum ekki tímann vegna þess að þær umræður sem hér fara fram um Stjórnarráð Íslands eru bæði gagnlegar og mikilvægar.

Ég óska eftir því að forseti skýri nánar áður en gengið verður til atkvæða hversu lengi hún hyggst halda þessum þingfundi áfram, hvort það standi til að halda hann í dag, þ.e. til miðnættis, eða hvort hún hafi einhver frekari fundahöld í huga. Ef við erum að hugsa um að vera til miðnættis er það ekki óeðlilegt, en ef við verðum eitthvað lengra inn í nóttina verð ég að hryggja frú forseta með því að greiða atkvæði gegn þessari tillögu.