139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna.

[16:05]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum um skuldavanda heimilanna og afskriftir bankanna á skuldum heimila. Hæstv. velferðarráðherra fór ágætlega yfir afstöðu okkar til þeirra mála. Það er staðreynd að heimilin á Íslandi eru skuldsettari en víða gengur og gerist í nágrannaríkjum okkar. Þar kemur til að Íslendingar eru tiltölulega ung þjóð og þar af leiðandi eru meiri skuldir hjá okkur en öðrum þjóðum. En fleira kemur til og vil ég þar sérstaklega nefna þá séreignarstefnu sem hér hefur ríkt í húsnæðismálum. Hún hefur valdið því að almenningur hefur þurft að taka þá áhættu sem fylgir fasteignaviðskiptum til að öðlast húsnæðisöryggi. Í húsnæðisstefnu stjórnvalda sem hefur verið unnin í víðtæku samráði í valdatíð hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, er lagt til að almennur leigumarkaður verði stórefldur til að koma sem valkostur við séreignarstefnuna og einnig að vaxtabótakerfið og húsaleigubótakerfið verði aðlöguð hvort að öðru svo að opinber húsnæðisstuðningur ívilni ekki sérstaklega þeim sem eru tilbúnir til að taka áhættu sem fylgir fasteignaviðskiptum.

Ég get fullvissað hv. þingmenn um að unnið er að þessu af fullu kappi, að koma þessum markmiðum í framkvæmd, en samtímis er líka verið að vinna að því að auka framboð lána með frumvarpi sem nú liggur fyrir þinginu um heimild til Íbúðalánasjóðs að veita óverðtryggð lán. Það er til þess að heimilin hafi frekari valkosti. Það sést að þau hafa verið að velja óverðtryggð lán hjá bönkunum. En mikilvægt er að Íbúðalánasjóður fái þessa heimild sem á að gæta hagsmuna almennings í útlánum sínum og horfa til þess að heimilin þurfi ekki að taka óhóflega áhættu.