139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ein af mikilvægu verklagsreglunum á Norðurlöndunum er sú að mikil áhersla er lögð á að hafa algjöran einhug um stefnuna í utanríkismálum og þá ekki síst í varnar- og öryggismálum. Það er sérstaklega áberandi í Noregi þar sem flokkar hafa þurft að beygja sig og sveigja til að ná samstöðu á þinginu í því augnamiði sérstaklega að stefnan í varnar- og öryggismálum verði skýr út á við.

Slíkt verklag og venjur eru til fyrirmyndar fyrir okkur eins og í þeim málaflokki og líka þegar við gerum grundvallarbreytingar eins og á Stjórnarráðinu eða á stjórnarskránni og tökum slík stórmál til umfjöllunar á þinginu. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti að framkoma þessarar ríkisstjórnar og kröfur hennar um breytingar á slíkum lögum fram til þessa eru ekki til eftirbreytni í framtíðinni.