139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans.

Í 27. gr. frumvarpsins stendur að lögin öðlist þegar gildi og að ráða megi aðstoðarmenn eftir næstu kosningar. Í breytingartillögum meiri hlutans er þetta hins vegar fellt á brott. Því er gert er ráð fyrir að fjölga megi aðstoðarmönnum strax.

Mig langar að spyrja hv. þingmann þeirrar spurningar: Telur þingmaðurinn við hæfi þegar verið er að spara útgjöld ríkisins — jafnvel þó að þörf sé á því að styrkja framkvæmdarvaldið að einhverju leyti en ekki síður Alþingi, sem er nú enn meiri þörf á að gera — að auka á einu bretti, með samþykkt frumvarpsins ef af verður, útgjöld ríkissjóðs um 100 millj. kr. að lágmarki?