139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyrði hjá hv. þingmanni hugsun sem ég heyri allt of oft og á ekki rétt á sér, þ.e. að Alþingi verði styrkt. Við eigum miklu frekar að segja að Alþingi styrki sig sjálft vegna þess að Alþingi hefur fjárveitingavald og það gæti mjög léttilega flutt allt það fólk úr ráðuneytunum sem er núna að semja frumvörp inn á nefndasvið, við getum kallað það lagaskrifstofu, og þar semji það frumvörp undir ritstjórn nefnda þingsins. Út á það gekk hugsun mín að ráðuneytin mundu snúa sér til viðkomandi nefndar þingsins og óska eftir því að flutt yrðu frumvörp í þessa og þessa veru til að laga þennan og þennan agnúa á framkvæmd ákveðinna laga, t.d. barnaverndarlaga eða eitthvað slíkt. Síðan mundu nefndir þingsins semja viðkomandi frumvarp og senda til ráðuneytisins á eftir til umsagnar, hvort hægt sé að framkvæma það. Það er þessi hugsun sem ég spurði um. Og varðandi ráðherrana, ég er nú bara að læra af gamalli reynslu, mjög gamalli.