139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:26]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að frumvarpið sé í algjörri andstöðu við það sem er rauði þráðurinn í allri gagnrýni og úttekt sem við höfum farið í gegnum frá hruni. Ég tel að hlutum sé snúið algjörlega á hvolf þegar hæstv. forsætisráðherra heldur því fram að það sé fyllilega í samræmi við niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og að við þurfum miklu frekar að efla þingið með einhverjum hætti.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherrar geti ráðið sér enn fleiri aðstoðarmenn. Ég minni á að um það leyti sem hrunið varð var búið að hrinda í framkvæmd ráðningum á aðstoðarmönnum þingmanna á landsbyggðinni. Við vitum að kjördæmin úti á landi eru mjög stór og það er mjög erfitt fyrir þingmenn að sinna skyldum sínum þar svo vel sé. Það er mikil vinna. Þetta eru víðfeðm kjördæmi og þarf víða að fara. Það var í rauninni ekkert óeðlilegt við að þingmönnum væri gert það kleift að hafa aðstoðarmenn í hlutastarfi til að hjálpa sér við þau störf. Þessi ríkisstjórn skar það af en svo ætlar hún að efla framkvæmdarvaldið. Það er ekki vandamál. Þá skipta peningarnir ekki máli. Er eitthvert samræmi í því? Er eitthvað tekið mark á allri þeirri gagnrýni sem við höfum fengið og því sem við höfum öll verið sammála um, að það þurfi að efla Alþingi, starfsemi þess og eftirlitshlutverk á kostnað framkvæmdarvaldsins? Það ætti frekar að færa (Forseti hringir.) verkefni til þingsins frá framkvæmdarvaldinu en það fer í þveröfuga átt.