139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég er einn þeirra sem hlustuðu á ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar, gerði það á skrifstofu minni handan vallarins og fannst hún um margt ágæt, ágætt innlegg í umræðu sem er orðin dálítið staglkennd. Það er því mjög ánægjulegt að heyra að hv. þingmaður blandar sér í umræðuna.

Ég er ekki sammála niðurstöðu hans að mörgu leyti en þó kannski fyrst og fremst út frá sömu forsendu og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir rakti í ræðu sinni í dag. Hún spurði: Er betra að einn stakur ráðherra geti haft örlög og öll mál ríkisstjórnarinnar í hendi sér? Annar ráðherra en forsætisráðherra sem þó hefur verið falið forustuhlutverk? Er skárra að einn ráðherra í ríkisstjórninni geti ráðið örlögum hennar og framgangi einstakra mála?